140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

ráðstafanir til að lækka eldsneytisverð.

559. mál
[18:02]
Horfa

Flm. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir ágætisspurningu. Hvað varðar fyrri hugleiðinguna þá er það þannig að ríkisstjórnin sem nú situr við völd býr við eins manns meiri hluta og það er í hendi hv. þingmanns að geta hætt stuðningi við ríkisstjórnina sem þýddi að það yrðu stjórnarslit og væntanlega yrðu kosningar. Allt bendir til þess að Sjálfstæðisflokkurinn yrði máttarstólpinn í næstu ríkisstjórn og það er alls ekki útilokað að ég gæti orðið fjármálaráðherra í þeirri ríkisstjórn þannig að þingmaðurinn hefur það eiginlega alveg í hendi sér að sprengja stjórnina í þeirri von að ég gæti orðið fjármálaráðherra. Að því leytinu til get ég huggað hv. þingmann og ósk hans gæti ræst, hann gæti meira að segja sjálfur látið hana rætast eða aukið líkurnar á því.

Hvað varðar þau tímabundnu vandræði sem hér var talað um þá er það þannig að þegar skoðaðir eru spádómar um þróun á verði á heimsmarkaðsvörum er mjög gott að leita í smiðju þeirra sem helst spá um þetta, t.d. eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eða banka sem sérhæfa sig í svona vörum. Þetta eru þær skýringar sem helstu sérfræðingar heims á þessu sviði gefa fyrir háu olíuverði og þetta eru líka þær skýringar sem taldar voru upp fyrir háu olíuverði í fyrra, þetta eru þær skýringar sem þeir gáfu. Mér finnst þær ekkert ólíklegar og hef enga ástæðu til að rengja þær en hv. þingmaður getur auðvitað af innsýn sinni (Forseti hringir.) haldið því fram að þetta sé ekki rétt. Honum er það frjálst.