140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

ráðstafanir til að lækka eldsneytisverð.

559. mál
[18:04]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það eina sem ég benti á, og það er óþarfi að vera sár yfir því, var að spádómur þingmannsins og hinna merku alþjóðastofnana sem hann studdist við um bensínlækkun 1. janúar ári 2012 rættust ekki. Réttlætingin fyrir því að gera hluti eins og þessa sem áður hafa verið gerðir í sögunni, meira að segja á þessari öld. Árið 2002 gerði ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins þetta, ekki á sama tíma árs að vísu heldur fram í júní þannig að ferðamannaágóði var lítill í því. Það var reyndar ekki til að lækka bensínverðið í sjálfu sér, heldur til að koma í veg fyrir að kjarasamningar færu yfir rauð strik þannig að í raun og veru var allt annar tilgangur með því. En réttlætanlegt er þetta ef um væri að ræða einhvers konar kúf, einhvers konar verðhækkun sem menn sæju fram á að hjaðnaði síðar og ríkið tæki þetta á sig til að jafna þetta út. Um það er ekki að ræða. Um það hefur hv. þingmaður ekki flutt neins konar sannfærandi rök og eini dómurinn sem ég er að kveða upp yfir honum er dómur reynslunnar, dómurinn um frumvarpið frá í fyrra sem ekki stóðst. Rök hans stóðust ekki þá.

Það sem maður hlýtur að álykta af þessu fyrir utan þennan hókus-pókus að lækka skatta er þetta: Af hverju þá bara þennan? Af hverju ekki bara alla skatta? Afnemum skatta og þá líður öllum vel, er það ekki? Það stendur í kennslubókum hv. þingmanns frá Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni og félögum hans og trúi því hver sem vill. Röksemdir hans fyrir nákvæmlega þessu standast því miður ekki og tillagan núna er, ef eitthvað er, heldur verri en í fyrra vegna þess að við höfum dóm reynslunnar.