140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

ráðstafanir til að lækka eldsneytisverð.

559. mál
[18:15]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Mér heyrðist hv. þingmaður í raun vera að leggja það til að þetta verði ekki tímabundin lækkun, tímabundið afnám hluta af skatti ríkisins á þessa vöru, heldur til frambúðar. Ég vil gjarnan fá að heyra hvort það er þannig að þingmaðurinn sé að leggja til að þessi gjöld, sem eru í hlutfalli hin lægstu á Norðurlöndum, eigi að lækka enn frekar.

Hitt er svo rétt að á undanförnum árum og áratugum hefur mönnum einmitt komið þetta til hugar. Sjálfstæðismenn eru ekki þeir fyrstu sem láta sér detta í hug að hækkun á verði á bensíni og dísil, sem kemur niður á rekstri fyrirtækja, sem kemur niður á afkomu heimila, sem hver einasti maður í landinu finnur fyrir — að það gæti verið snjallt að ríkið reyndi að deyfa þann sársauka með því að lækka tímabundið gjöld sín og álögur á það, að þessi mikilvægi tekjustofn verði að einhverju leyti skertur. Þetta er ekki í fyrsta sinn. Það er rétt að hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi hv. þingmaður, lagði þetta til árið 2005.

Það er líka rétt að árið 2002 kom ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, það voru þá þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson sem voru við stjórn, þetta til hugar í nokkra mánuði, í þrjá mánuði árið 2002. Það var vegna þess að rauð strik voru í kjarasamningum sem þurfti að reyna að ná undir eins og menn stunduðu í þann tíma. Ég held að tæknilega hafi verið auðveldast að gera það með þeim hætti og það var gert. En það var stoppað í apríl á því ári og ekki haldið áfram.

Spurningin er þessi: Erum við að tala um lækkun til frambúðar eða erum við að fara í gegnum ölduhrygg, að taka af kúf, eins og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson hefur spáð fyrir um og spáir áfram, eins og Jesaja spámaður, að hætti alltaf í árslok, hann sé búinn í árslok?