140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:06]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við funduðum um það mál sem hv. þm. Helgi Hjörvar vísaði í í morgun. Þar kom fram að það væri almenn regla hjá fjármálafyrirtækjunum að senda út greiðsluseðla eins og enginn dómur hefði fallið. Við höfum rætt þetta í efnahags- og viðskiptanefnd og í almennri umræðu síðan þessi dómur féll og það var af þessum ástæðum sem við fórum fram á að halda annan fund í dag. Við viljum þá fá á okkar fund eftirlitsstofnun sem á að hafa eftirlit með því að fjármálafyrirtækin fari eftir lögum, og eðli málsins samkvæmt fylgja því eftir þegar dómar falla. Því verður ekki trúað, virðulegi forseti, að fjármálafyrirtækin láti eins og enginn dómur hafi fallið í þessu máli.

Ég fagna því að hv. formaður nefndarinnar hafi orðið við beiðni okkar um að halda annan fund í dag, þá fundum við með Fjármálaeftirlitinu og fjármálastofnunum. Fyrir utan óþægindin af því að greiða of háa reikninga, sem fólk mun gera ef það greiðir óbreytta reikninga eftir þennan dóm, þá er ljóst að þegar fyrirtæki hafa gert þetta og farið síðan á hausinn — þá er ég að vísa til fjármálafyrirtækjanna — hafa þeir sem hafa greitt þessa reikninga, lánþegar, borið beinan skaða af.

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að þegar ég heyrði þessar fréttir í morgun þá trúði ég þeim ekki. Ég trúði því ekki eftir alla fundina, bæði fyrir dóminn og eftir dóminn, að þetta væri staðan en eftir okkar bestu heimildum þá er þessi staða uppi. Ég vonast til þess að sá fundur sem við höldum í dag verði til þess að einhver breyting verði á.