140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Mikil reiði er í samfélaginu með óréttlætið og misskiptinguna sem sértæk skuldaúrræði og þröng túlkun á dómum Hæstaréttar hafa alið af sér. Sértæk úrræði hafa þýtt að margar fjármálastofnanir hafa fengið að túlka lög og dóma eftir eigin hentugleika og síðan hafa lántakendur þurft að sækja rétt sinn fyrir dómstólum.

Frú forseti. Ég óttast að upp úr sjóði núna um mánaðamótin þegar þeir sem tóku ólögleg gengistryggð lán fá greiðsluseðla eins og enginn hæstaréttardómur hafi fallið. Kröfuhafar hafa hert á innheimtuaðgerðum eftir að dómur Hæstaréttar féll og fólk hringir til þess að tjá okkur þingmönnum að bankarnir neiti að afhenda skjöl sem það þarf til að átta sig á hvað það á inni hjá bönkunum.

Frú forseti. Við getum ekki setið hér og beðið eftir að vandamálin leysist af sjálfu sér. Þau munu ekki gera það. Alþingi þarf að grípa inn í og tryggja lögbann á innheimtuaðgerðum. Alþingi verður að koma á samráði milli lántakenda og lánveitenda um sameiginlega dómatúlkun og hvaða prófmál þurfa að fara í gegn til þess að leysa úr ágreiningi sem er uppi. Alþingi verður að hraða vinnslu frumvarpa sem auðvelda fólki að skila inn lyklum að eign sinni, fela í sér almenna leiðréttingu lána og afnám verðtryggingar í áföngum ásamt niðurfellingu stimpilgjalda.

Frú forseti. Sýnum samstöðu með venjulegu fólki í landinu í stað þessa að sundra því.