140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Það má heyra samhljóm í röddum þingmanna í dag og það er vel. Sú var tíðin að hér var sameinað Alþingi og ég held að við þurfum á sameinuðu þingi að halda á ný í mörgum verkefnum, svo sem þeim er koma að rétti lánveitenda umfram rétt lántakenda sem ræddur hefur verið hér undir liðnum Störf þingsins.

Við þurfum einnig að leggjast á eitt við að leysa vanda þeirra sem hafa tekið hin hefðbundnu verðtryggðu húsnæðislán og sitja uppi með það hrun sem allir þekkja og veldur miklum áhyggjum á fjölda heimila. Ég tel að við eigum að setjast niður, allir flokkarnir, og ræða þær fjórar til fimm hugmyndir sem fram hafa komið í þessum efnum, blanda þeim ef til vill saman, taka það besta úr þeim og búa til eina raunhæfa leið. Við verðum jafnframt, vegna þess að þetta mál hefur á sér tvær hliðar, að athuga hver á að borga, hvenær, hverjum og hve lengi. Og við verðum jafnframt, vegna þess að þetta mál hefur á sér tvær hliðar, að athuga hvaða afleiðingar þetta hefur fyrir verðbólguna, fyrir vextina hér í landi, því að það má ekki verða svo að þessar lagfæringar verði til þess að kveikja aftur verðbólgubál og koma vöxtum aftur upp í himinhæðir. Við þurfum að halda aftur af verðbólgunni, við þurfum á aga í ríkisfjármálum að halda. Aðgerðir nú til hjálpar heimilunum mega ekki verða til þess að auka enn frekar á vandann til framtíðar. Við eigum því að setjast niður, skoða allar uppbyggilegar hugmyndir og það gildir einu frá hvaða flokki þær koma. (Gripið fram í: Framsóknarflokknum.) Framsóknarflokknum, Sjálfstæðisflokknum, Vinstri grænum, Samfylkingu eða Hreyfingunni, allt það besta frá þessum flokkum þurfum við að horfa á og skoða og sjá hvaða leiðir eru færar upp úr vandanum. (Gripið fram í.)