140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Á fund fjárlaganefndar í morgun komu gestir frá Ríkisendurskoðun. Þar var meðal annars rætt um skil ráðuneyta á rekstraráætlunum fyrir undirstofnanir sínar og þar komu fram upplýsingar og athugasemdir sem ég tel rétt að hv. alþingismenn velti aðeins fyrir sér.

Þannig er að þegar fjárlög hafa verið samþykkt ber undirstofnunum ráðuneytanna að leggja fram til ráðuneytisins rekstraráætlun sem ráðuneytið á síðan að samþykkja eða synja. Um það eru dæmi, og það skiptir máli, það eru tilvik þar sem ráðuneytin hafa samþykkt rekstraráætlanir frá stofnunum þar sem gert er ráð fyrir því að útgjöld viðkomandi stofnana verði meiri og fari umfram það sem Alþingi hafði ákveðið í fjárlögum. Málið er, frú forseti, að sérstaklega er kveðið á um það í reglugerð um framkvæmd fjárlaga að slíkt sé ekki heimilt, ráðuneytunum er ekki heimilt að staðfesta rekstraráætlanir undirstofnana sinna ef þær eru ekki innan þeirra marka sem Alþingi hefur sett með fjárlögum. Því miður, frú forseti, eru nokkur dæmi um þetta og Ríkisendurskoðun hefur birt lista yfir þær stofnanir þar sem svona hefur verið haldið á málum.

Spurningin er líka sú: Til hvers er verið að setja reglugerðir með stoð í lögum ef ráðuneytin fara ekki eftir slíkum reglugerðum og fylgja þeim ekki? Þá væri nær að afnema slíkar reglugerðir úr því að látið er átölulaust að ráðuneytin fari fram með slíkum hætti.

Frú forseti. Ég vildi vekja athygli hv. þingheims á þessu máli.