140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hægt og hljótt en markvisst og örugglega er að verða til ný orkustefna í landinu sem lýtur að gerbreyttri verðlagningu á raforku. Það kom fram í svari hæstv. fjármálaráðherra, starfandi iðnaðarráðherra, við fyrirspurn minni á mánudaginn var að ætlunin væri sú að hækka orkuverð, til að mynda frá Landsvirkjun og slíkum fyrirtækjum, um 100%, tvöfalda það á næstu 20 árum. Þetta þýðir væntanlega að á næstu 20 árum munum við á ári hverju sjá raunhækkun á raforkuverði frá þessum fyrirtækjum upp á 4–5%. Með þessu er verið að hverfa frá þeirri verðstefnu sem við höfum fylgt sem hefur falist í því að reyna að láta almenning og almenn fyrirtæki hér á landi njóta þess að við getum framleitt græna endurnýjanlega orku á lægra verði en fæst í flestum samkeppnislöndum okkar.

Þetta er raunveruleikinn sem blasir við okkur núna. Á sama tíma er verið að leggja hér inn í umræðuna hugmyndir frá stjórnskipaðri nefnd um að lækka orkuverð til húshitunar allverulega. Það er alveg ljóst að þessi nýja orkustefna stangast á við þær hugmyndir og hún stangast líka á við allar hugmyndir sem hafa verið uppi, t.d. hér úr þingsölum, um að reyna að stuðla að því að lækka orkuverð til grænnar stóriðju, sem menn hafa kallað svo, garðyrkjunnar í landinu.

Þetta er hlutur sem mér finnst ekki að Alþingi geti látið fram hjá sér fara án þess að þau mál séu rædd. Við þekkjum umræðuna sem hefur snúist um raforkuverð til stóriðju. Það er annað mál. Það eru samningar sem gerðir eru til langs tíma og endurspegla auðvitað samkeppnisumhverfið sem er í þeim greinum. Hér er verið að ræða almennt um það að ætlunin sé að tvöfalda orkuverð til almennra neytenda í landinu á 20 árum og sama varðandi annan atvinnurekstur. Þetta er auðvitað mál sem mun hafa miklar afleiðingar (Forseti hringir.) fyrir kjör almennings og samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja.