140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það er náttúrlega fráleitt ef fjármálafyrirtæki ætla að halda áfram að innheimta gengistryggð lán eins og ekkert hafi í skorist í kjölfar dóms Hæstaréttar. Ég fagna því að við þingmenn munum í kvöld funda með fulltrúum fjármálafyrirtækja í landinu því að svona framkoma gagnvart skuldugum heimilum er fyrir neðan allar hellur og fjármálafyrirtækin verða að hugsa sinn gang. Því vil ég lýsa yfir mikilli ánægju með að við munum, þvert á flokka, taka þetta mál fyrir í kvöld á fundi efnahags- og viðskiptanefndar þingsins.

Ég vil jafnframt hvetja til þess að menn hlusti á þá orðræðu sem hér hefur farið fram, þá hvatningu sem fulltrúar margra stjórnmálaflokka hafa komið hér með, að nú sé kominn tími til þess að vinna saman að því að leysa skuldavanda heimilanna. Við framsóknarmenn höfum talað fyrir þeirri leið nú í nokkur ár.

Í annan stað vil ég nefna þær áhyggjur sem ég hef af vinnulaginu í þinginu og af því atvinnuleysi sem hrjáir atvinnuveganefnd Alþingis. Fram undan er nefndavika þar sem aðalstarf okkar alþingismanna á að fara fram og atvinnuveganefnd er nærri því verklaus. Rammaáætlun sem átti að koma fram á síðasta ári hefur ekki litið dagsins ljós og endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu, það plagg hefur ekki litið dagsins ljós. Maður veltir því fyrir sér á tímum atvinnuleysis og fólksflótta hver áhersla ríkisstjórnarflokkanna á Íslandi er í dag þegar við ættum að vera að ræða þau tímamótamál, sem eru verndun og nýting á náttúru Íslands annars vegar og hins vegar hvernig við viljum sjá framtíðarhorfur í undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar sem er sjávarútvegurinn. Það er áhyggjuefni að hvorugt þessara mála skuli vera komið inn á borð atvinnuveganefndar (Forseti hringir.) núna þegar við ættum að vera að ræða um atvinnuskapandi aðgerðir á Íslandi.