140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar til að gera hér að umtalsefni málefni Fjármálaeftirlitsins og þó sérstaklega það atriði sem snýr að brottvikningu forstjóra þess. Það vildi svo undarlega til að eftir að hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra fór yfir í efnahags- og viðskiptaráðuneytið varð nánast hans fyrsta verk að kalla til sinn flokksbróður við þriðja mann og þeir gáfu út vottorð um að Gunnar Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, væri að öllum líkindum vanhæfur til að gegna starfinu, a.m.k. eins og það var orðað væri það huglægt mat þessa manns að hann væri vanhæfur til að gegna þessu starfi. Það er alveg einkennilegt að þessi umræða skuli ekki vera vakandi í samfélaginu því að þarna fer pólitíkin freklega inn á svið opinberra starfsmanna. Samkvæmt lagaskilgreiningum er viðkomandi starfsmaður opinber starfsmaður og hefur þessi embættismaður nú sent erindi í efnahags- og viðskiptaráðuneytið til að fá úr því skorið hvort hann sé ekki örugglega opinber starfsmaður. Þarna sjáið þið hvað ruglið er mikið hjá þessari ríkisstjórn, að embættismenn skuli þurfa að vera að senda erindi inn í ráðuneytið til að fá úrskurð um hvernig starfsmenn þeir eru.

Ef viðkomandi starfsmaður er ekki opinber starfsmaður hlýtur hann að vera starfsmaður á sviði einkaréttar en það á á engan hátt við. Þess vegna skil ég ekki hvers vegna fjölmiðlar hafa ekki tekið þetta mál upp, að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefur haft forgöngu um að víkja opinberum starfsmanni frá störfum. Ég kalla eftir samtökum launþega nú, hvar eru samtök opinberra starfsmanna? (Forseti hringir.) Hvers vegna stendur enginn með þessum opinbera starfsmanni? Er þetta framtíðin, frú forseti, að ráðherrarnir geti (Forseti hringir.) farið að reka hér og ráða menn eins og þeim hentar?