140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Svör hv. þm. Helga Hjörvars, formanns efnahags- og viðskiptanefndar, ollu mér vonbrigðum. Hann segir að það sé til nóg fé á Íslandi og hefur engar áhyggjur af því að það sé verið að höggva í sama knérunn, bæði gagnvart lífeyrissjóðum og sparifjáreigendum. Hann virðist ekki hafa neinar áhyggjur af því að það gæti minnkað trú manna á sparnaði til framtíðar sem getur valdið því að börnin okkar fá ekki lán til íbúðakaupa og fyrirtæki fái ekki lán til að skapa atvinnu handa börnunum okkar.

Þetta er að sjálfsögðu mjög alvarlegt mál og mér finnst að þingmenn ættu almennt séð að fara að skoða uppruna fjárins sem við erum að fá lánað. Peningarnir detta nefnilega ekki af himnum ofan í vasa til dæmis fjármálaráðherra eða Seðlabankans. Þeir eru alltaf afrakstur sparnaðar. Það sem er lánað út þarf að spara annars staðar og ef það er ekki gert myndast óðaverðbólga. Við verðum alltaf að skoða uppruna fjárins og gæta þess að sú uppspretta þorni ekki.

Lífeyrissjóðirnir fá jú verðtryggingu en það eru ekki tekjur fyrir lífeyrissjóðina því að krónan hreinlega rýrnar. Ég vil benda á að lífeyrissjóðirnir eru að borga 80 milljarða í verðtryggðan lífeyri og ef menn ætla að skerða verðtrygginguna á innlánum lífeyrissjóðanna eða skerða einhvern veginn getu þeirra eru þeir hreint og beint að ráðast á lífeyrisþega; örorkulífeyrisþega og ellilífeyrisþega. Menn þurfa að gera sér grein fyrir því að það er ekki hægt að ganga í lífeyrissjóðina eins og ekkert sé og segja: Þarna er nóg af peningum, ég ætla að taka hluta af þeim og hækka ellilífeyrisaldurinn, eitthvað svoleiðis, eins og menn hafa nefnt.

Mér finnst þetta ábyrgðarlaust tal og menn þurfa að fara að skoða þetta. Svo hefur komið í ljós að eldra fólk sem keypti húsbréf fyrir 10–20 árum er núna að borga 20% fjármagnstekjuskatt 17 ár aftur í tímann. Og það er ekkert gert í því, þetta er að mínu mati stjórnarskrárbrot og hv. nefnd sem (Forseti hringir.) hv. þingmaður stýrir gerir ekkert í því.