140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

upplýsingaréttur um umhverfismál.

59. mál
[15:41]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég verð að viðurkenna að það kemur mér nokkuð á óvart að það sé beðið um að þetta mál sé tekið inn til nefndar vegna þess að við höfum farið vel yfir það og brugðist við gagnlegum ábendingum sem fram hafa komið. Það er þó að sjálfsögðu rétt og skylt að verða við beiðni um að taka það aftur til nefndarinnar. Ég brýni samt þingheim í þessum málum vegna þess að hér er mikilvægt og gott mál á ferðinni, framfaraskref í því augnamiði að tryggja og treysta upplýsingarétt almennings um umhverfismál og þá skyldu stjórnvalda að hafa frumkvæði í upplýsingagjöf ef ástæða er til að ætla að frávik verði vegna mengunar í umhverfi sem getur haft áhrif á heilsu manna og umhverfi fólks eða dýra. Ég brýni fólk í að gera sér grein fyrir mikilvægi þessa máls og mikilvægi þess að það nái fram að ganga og þakka sérstaklega hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur fyrir hennar vasklegu framgöngu og frumkvæði í þessu máli.