140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[15:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur fjallað ítarlega um málið eins og sjá má af nefndaráliti meiri hlutans sem liggur frammi. Í fyrsta lagi fjölluðum við um heimild til Alþingis til að koma aftur að málinu eins og lagt er til í tillögu hv. þm. Bjarna Benediktssonar. Í öðru lagi fjölluðum við um málsmeðferðarreglur, í þriðja lagi um efnisleg skilyrði afturköllunar, í fjórða lagi um hæfi þingmanna og loks í fimmta og síðasta lagi um aðgang að gögnum saksóknara ef ákæran verður afturkölluð.

Við fyrri umræðu þessa máls var nokkuð fjallað um hvort Alþingi gæti haft þá aðkomu að meðferð málsins sem nú er rekið fyrir landsdómi eins og þingsályktunartillagan felur í sér. Lögð var fram rökstudd tillaga um að vísa málinu frá. Sú tillaga var felld og að því gerðu var málinu vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Virðulegi forseti. Nefndin ákvað engu að síður að kynna sér ítarlega þau rök sem vega með og á móti því að Alþingi komi aftur að málinu eftir að það er komið í hendur saksóknara. Það er alkunna að hin klassíska, ef svo má að orði komast, skoðun hefur verið uppi að þegar Alþingi hefur samþykkt málshöfðun og kosið saksóknara og, eins og varð eftir 1963, kosið nefnd fimm þingmanna til að fylgjast með málinu og vera saksóknara til aðstoðar sé málið komið úr höndum þingsins og hvorki hið sama þing né nýtt þing að afloknum kosningum nýskipað geti eftir það afturkallað málsókn.

Nú hafa lögfræðingar uppi aðra skoðun og segja Alþingi geta gripið inn í málið þótt það sé komið fyrir rétt og nefna sér til fulltingis að þeir fræðimenn sem höfðu hina fyrri skoðun hafi hvergi rökstutt hana. Reyndar komst einn gestanna svo að orði að ef til vill hefði prófessor Ólafi Jóhannessyni þótt það svo sjálfsagt að honum hafi ekki dottið í hug að skrifa niður að Alþingi mætti ekki koma aftur að málinu.

Einn gestur nefndarinnar nefndi þann algilda sannleik að fólk á ekki alltaf að gera það sem það má gera. Er allt leyfilegt sem ekki er bannað? Við hljótum að velta því fyrir okkur. Veltum því einfaldlega fyrir okkur hvort það sé rétt að við grípum inn í mál sem er fyrir dómi. Ég held að í öllum öðrum tilfellum fyndist okkur það með öllu óeðlilegt. Nú er ein helsta röksemdin að tillögur hafi verið gerðar um að ákæra fjóra ráðherra en einungis ein tillagan hafi verið samþykkt. Það eru ekki rök í málinu. Farið var að öllum reglum sem gilda um ráðherraábyrgð og landsdóm þegar fjallað var um ákærurnar og við getum ekki snúið klukkunni til baka í þessum efnum.

Meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fellst á röksemdir þeirra sem segja að Alþingi sé ekki bannað að grípa inn í málið. Við teljum hins vegar að þó að Alþingi megi þá eigi það ekki að skipta sér af málinu þegar það er komið fyrir dóm (Gripið fram í: Heyr, heyr.) nema brýnar ástæður séu fyrir því eða saksóknari fari fram á það við þingið. Þess vegna leggur meiri hlutinn til að málinu verði vísað frá, ekki vegna þess að við viljum ekki taka efnislega afstöðu til þess heldur vegna þess að fólk á ekki alltaf að gera allt sem það má. Meiri hlutinn telur að hið sama eigi við um Alþingi. (Gripið fram í: Þetta er ekki hægt, maður heyrir ekki …)

Þá tók nefndin til athugunar hvort það hefði einhver áhrif á málsmeðferðina að fyrr á tímum voru einkamálalög notuð til fyllingar landsdómslögum, þar á eftir lög um meðferð opinberra mála og nú sakamálalöggjöf. Það er mat meiri hlutans að þessar breytingar hafi engin áhrif haft á meðferð mála fyrir landsdómi.

Í þriðja lagi var fjallað um efnisleg skilyrði fyrir afturköllun ákæru og í þeim efnum litið til laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, en þau lög gilda til fyllingar landsdómslögum síðan 1. janúar 2009. Í 146. gr. laganna er mælt fyrir um heimildir ákæruvaldsins til að falla frá saksókn ef fyrir hendi eru efnislegar ástæður, svo sem ef brot er smávægilegt eða fyrirsjáanlegt, að umfang málsins verði í verulegu ósamræmi við þá refsingu sem vænta má, ef brot hefur valdið sakborningi sjálfum óvenjulega miklum þjáningum eða aðrar sérstakar ástæður mæla með því að fallið verði frá saksókn enda verði að telja að almannahagsmunir krefjist ekki málshöfðunar.

Þetta eru ástæðurnar, virðulegi forseti, sem taldar eru upp og heimila ákæruvaldinu að falla frá saksókn.

Virðulegi forseti. Fyrir nefndinni kom fram að ákæruvaldið þarf alltaf að byggja á málefnalegum sjónarmiðum þegar saksókn er felld niður. Ákæruvaldið getur ekki fellt niður ákæru „af því bara“. Ákæruvaldið verður að hafa til þess málefnalega ástæðu. Þetta er önnur ástæða, virðulegi forseti, fyrir því að meiri hlutinn leggur til að tillögunni verði vísað frá. Það er vegna þess að til grundvallar henni liggja ekki málefnalegar ástæður. Ef svo væri hefði saksóknari flutt okkur þau tíðindi og lagt til að ákæran yrði afturkölluð en það hefur sem sagt ekki gerst.

Málið er nokkuð einfalt, forseti. Það eru ekki málefnalegar ástæður til að draga ákæruna til baka. Þess vegna leggur meiri hlutinn til vara til að þingið felli þingsályktunartillögu sem er mál nr. 403, um að afturkalla ákæruna.

Til að ekkert fari á milli mála tek ég enn fram að meiri hlutinn telur að þingið eigi að vísa tillögunni frá vegna þess að fyrir henni eru ekki málefnalegar ástæður og af því að þingið á ekki að koma að þessu á þessum tíma. Ef þingið vill gera það leggur meiri hlutinn til að þingið felli þingsályktunartillöguna vegna þess að það eru ekki málefnalegar ástæður til að samþykkja hana og ákæruvaldið, hvort heldur það er hjá Alþingi eins og það er í þessu máli eða hjá ríkissaksóknara eins og almennt gerist, getur ekki afturkallað ákæru „af því bara“. Það verða að liggja málefnalegar ástæður fyrir þeirri gjörð.

Virðulegi forseti. Nefndin fjallaði einnig um hæfi þingmanna til að koma að þessu máli. Fyrir liggur að margir þingmenn eru á vitnalista og fyrir nefndinni komu fram efasemdir um hæfi þeirra þingmanna til að taka þátt í afgreiðslu málsins. Eina formlega vanhæfisreglan um þingmenn er 3. mgr. 71. gr. þingskapa sem varðar þátttöku í atkvæðagreiðslu en þar er kveðið á um að enginn þingmaður megi greiða atkvæði með fjárveitingu til sjálfs sín. Hvorki í stjórnarskrá né lögum um þingsköp Alþingis er því að finna aðrar formlegar reglur sem útiloka þingmann frá því að taka þátt í meðferð máls sem hann varðar. Það er sem sagt ekkert sem gerir það að verkum að þingmenn séu vanhæfir í þessu máli.

Loks var fjallað um það hvað yrði um gögn saksóknara ef ákæran yrði afturkölluð. Niðurstaða þeirrar skoðunar var þessi: Aðgangur að gögnum úr sakamálum er mjög takmarkaður þar sem upplýsingalög undanskilja gögn vegna rannsóknar í opinberum málum og gögn hjá dómstólum. Þannig eru afrit af ákæru og greinargerð verjanda í þessu máli eingöngu aðgengileg fyrir almenning en önnur gögn undanþegin aðgangi í 30 ár frá því að þau urðu til nema gögnin varði einkamálefni einstaklinga, þá eru þau undanþegin í 80 ár. Af þessu leiðir að ef málið verður afturkallað verður því lokað og gögn þess ekki aðgengileg fyrr en eftir 30 ár, og 80 ár eftir atvikum. Verði málið hins vegar flutt verður það gert í heyranda hljóði og málsgögn lögð fram.

Ég hef nú farið yfir þau álitamál sem nefndin fór yfir í umfjöllun sinni um málið. Meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar leggur til að málinu verði vísað frá. Enn einu sinni er undirstrikað að það er ekki vegna þess að meiri hlutinn vilji ekki taka efnislega afstöðu til málsins heldur vegna þess að meiri hlutinn telur að þingið eigi ekki að fást við málið þegar það er komið fyrir dóm þótt það megi það í þröngum lagalegum skilningi.

Í annan stað telur meiri hlutinn að efnislegar ástæður liggi ekki fyrir til að afturkalla málið. Ef svo væri hefði saksóknara borið að leggja slíkar tillögur fyrir þingið. Einmitt á þeirri forsendu telur meiri hlutinn að vísa eigi málinu frá. Ef virðulegur þingheimur telur engu að síður að hann geti blandað sér inn í þetta mál, og hann getur það í lögfræðilegum skilningi, og þá á ég við ef hann samkvæmt öðrum lögmálum sem við alla jafna reynum að hafa að leiðarljósi telur að hann geti blandað sér inn í þetta mál, leggur meiri hlutinn til að þingsályktunartillaga, mál nr. 403, um afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, (Gripið fram í.) fyrrverandi forsætisráðherra, verði felld af því að það eru ekki málefnalegar ástæður samkvæmt sakamálalögum til að afturkalla hana og að „af því bara“ eru ekki haldbær rök fyrir svo grófum afskiptum af málarekstri fyrir dómstólum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Meiri hluti stjórnskipunarnefndar stendur að þessu áliti. Það eru fimm sem skrifa undir það, Lúðvík Geirsson, Margrét Tryggvadóttir, Mörður Árnason, Álfheiður Ingadóttir og ég. Magnús Norðdahl sem einnig fellst á þetta meirihlutaálit vill hins vegar gera ítarlegri grein fyrir máli sínu og hefur því skilað séráliti.