140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[16:02]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég lít þannig á að það sé grundvallarskylda þingsins að taka afstöðu til þess hvort sá sem til stendur að ákæra hafi gerst brotlegur við lög eður ei. Í þessu máli, sem er um svo marga hluti sérstakt, hvílir ákæruvaldið sameiginlega í höndum 63 þingmanna. Þeir verða á endanum hver fyrir sig að gera það upp við sig hvort ástæður séu til að höfða mál eða ekki. Eins og við þekkjum (Gripið fram í.) voru hér um það skiptar skoðanir á sínum tíma. Eftir að málið kom fram sem hér er rætt um hefur komið í ljós að margir þeirra sem fara hver með sínum hætti með sinn hluta ákæruvaldsins hafa litið málið öðrum augum frá því að ákært var.

Þess vegna vil ég bera það upp við formann nefndarinnar hvort það eina sem við eigum að velta fyrir okkur hér sé ekki einmitt það hvort ákærandinn í málinu, þingið, sé enn þeirrar skoðunar að sakborningurinn í málinu sé sekur eður ei. Og hvaða staða er komin upp að mati formanns nefndarinnar ef það liggur fyrir að meiri hluti þingmanna telur ekki lengur að sakborningurinn hafi brotið lög? (Gripið fram í.) Hvers konar réttarhöld eru þá að fara að eiga sér stað? (Gripið fram í.)

Í fyrri umræðum um þetta mál hafa fleiri en einn og fleiri en tveir þingmenn stigið fram og sagt að þeir séu ekki lengur þeirrar skoðunar að rétt hafi verið að höfða málið. (MÁ: Þú ert ekki …) Hvaða staða er þá komin upp í landsdómsmálinu sjálfu? Þetta er grundvallaratriði í mínum huga. Við getum ekki látið einhver tæknileg atriði í ljósi þess að þingið fer með ákæruvaldið koma í veg fyrir (Forseti hringir.) að þetta grundvallaratriði verði skýrt hér í meðförum þingsins.