140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[16:08]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, ég tel það ekki málefnaleg rök til að fara inn í dómsmál að einhver hér í þessum þingsal segi nú að hann eða hún hafi skipt um skoðun. Ég tel að Alþingi eigi ekki að fara inn í þetta mál. Það er fyrir landsdómi og landsdómur mun dæma í því.

Hvað varðar saksóknarann treysti ég því að ef saksóknarinn teldi eitthvað það fram komið í málinu sem gerði það að verkum að það ætti að afturkalla ákæruna hefði hann látið þingið vita. Hann hefur sér til fulltingis og aðstoðar fimm manna nefnd, svokallaða saksóknarnefnd. Eftir því sem ég best veit hefur það aldrei heyrst í þeirri nefnd að saksóknari telji að það eigi að kalla ákæruna til baka.