140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[16:11]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að það stendur hvergi í lögum að þingið megi ekki fara þarna inn. Eins og ég gat um í framsögu minni sagði einn viðmælandi á nefndarfundi að kannski — ég held að það sé orðið sem hann notaði — hafi prófessor Ólafi Jóhannessyni þótt það svo sjálfsagt að þetta yrði ekki gert að hann hafi ekki skrifað það niður. En það er alveg hárrétt að ungir lögfræðingar nú til dags efast um það og við heyrum það sem við heyrum. Hins vegar er það, eins og ég sagði líka áðan, sjálfstætt álitamál hvort þingið eigi að fara inn í þetta mál. Ég bið þingið að hugsa sig mjög vel um. Þess vegna segjum við að það eigi að vísa málinu frá.

Ég get staðfest að skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu sagði það, sem rétt er, að saksóknin virðist að miklu leyti byggð á gögnum úr stjórnsýslunni. Þau eru náttúrlega einhvers staðar geymd en þau leysast upp í frumeindir sínar, ef ég má orða það svo, þau verða hér og þar og tvist og bast. Fólk þarf að finna út hvar þau eru og hvers vegna það eigi að biðja um þau, á hvaða grundvelli og þar fram eftir götunum. Því er ekki saman að jafna. Síðan verða þau gögn sem saksóknarinn hefur aflað sérstaklega vegna þessa náttúrlega ekki þar.