140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[16:42]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er áhugavert að hv. þm. Magnús Norðdahl kemst að sömu niðurstöðu og meiri hlutinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd en er þó ósammála þeim sem þar sitja um kannski veigamesta atriðið, þ.e. hvort Alþingi getur afturkallað ákæru eða ekki, því að hv. þm. Magnús Norðdahl heldur því enn þá fram og byggir bæði nefndarálit sitt og ræðu að meginstefnu til á því að Alþingi geti ekki afturkallað ákæru. Það er ekki hægt að skilja málflutning hans, hvorki í nefndaráliti né ræðu, öðruvísi.

Hvernig skýrir hv. þingmaður að meiri hluti nefndarinnar sem hann er í allgóðu sambandi við skuli komast að annarri niðurstöðu varðandi það veigamikla atriði? Kann það að vera vegna þess að hver einasti fræðimaður sem fyrir nefndina kom og reyndir saksóknarar voru þeirrar skoðunar að Alþingi gæti (Forseti hringir.) afturkallað ákæruna?