140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[16:50]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Magnús M. Norðdahl) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Svarið við því hvort Alþingi geti þetta er bæði já og nei. Það þarf að gera það á réttan hátt. Frumkvæðisrétturinn að þessu máli er ekki hjá Alþingi. Það getur tekið nýja ákvörðun ef slíkt berst til Alþingis með lögmætum hætti frá saksóknara Alþingis. Það er mín skoðun, já.

Getur Alþingi bara tekið hvaða ákvörðun sem er? Nei, Alþingi hefur tekið margar ólöglegar ákvarðanir gegnum tíðina. Það endurspeglast í dómasafni Hæstaréttar þegar Alþingi samþykkir lög á Alþingi sem fara gegn stjórnarskrá. Þá tekur Alþingi ólöglegar ákvarðanir. Allt sem Alþingi gerir er því ekki endilega rétt. Þannig að jafnvel þó að Alþingi taki ákvörðun í þessu máli skulum við hafa það í huga að þetta verður uppspretta deiluefna inn í framtíðina um hvort þetta hafi verið siðferðilega réttlætanlegt, lagalega réttlætanlegt og hvort þetta mál fái nokkurn tímann einhverja lúkningu, úr því það er tekið út úr dómstólunum.