140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[16:54]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg kristaltært, eftir úrskurð landsdóms frá því í haust, að saksóknari getur ekki haft neitt frumkvæði að því að gera breytingar á ákærunni — ekkert frumkvæði. Telji hann rétt, eins og segir í úrskurði landsdóms, að takmarka eða auka við ákæruatriðin verður hann að beina því til Alþingis að samþykkja nýja þingsályktun með þeim breytingum sem hann telur rétt að gera. Svo segir beint í úrskurði landsdóms:

„Saksóknari Alþingis hefur því hvorki ákæruvald í málinu né hefur hann forræði á því hvers efnis ákæran er.“

Þetta er algjörlega tært. Þannig hefur ákæruvaldið hvílt á þinginu.

Ef þetta er skýrt og ef við hv. þingmaður erum sammála um þetta er það þá ekki algjör rökleysa að sá sem fer með valdið, ákæruvaldið, megi ekki hafa frumkvæði? Ef það er ekki rökleysa, ef það eru einhver sérstök rök fyrir því að sá sem fari með ákæruvaldið (Forseti hringir.) megi ekki hafa frumkvæði að því hvernig því er beitt, hver eru þá þau rök? Það hefur ekki komið fram í þessum málflutningi.