140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[16:55]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Magnús M. Norðdahl) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er áhugavert að svara sömu spurningunni aftur, auðvitað er alveg kristaltært að ákæruvaldið er hjá Alþingi. Það er kristaltært að saksóknari Alþingis getur ekki tekið það upp hjá sjálfum sér að fella málið niður eða gera breytingar á því. Um það er enginn ágreiningur og það kom ekki fram í ræðu minni. Hins vegar þarf að gera þetta eftir réttum reglum. Það er það sem er ekki kristaltært og það er sá pollur sem verið er að sulla í, hver eigi frumkvæðisréttinn.

Eins og framsögumaður meiri hlutans sagði þá hafa menn stundum litið svo á að ef eitthvað sé ekki sérstaklega bannað sé það leyft. Það olli þeim illu örlögum sem íslensk þjóð hlaut við hrunið 2008, að hafa tamið sér þess háttar lögskýringar. Það sem ekki er sérstaklega bannað, það bara má.