140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[16:56]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Áður en ég rek efni nefndarálits okkar Ólafar Nordal, fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, vil ég lýsa nokkurri undrun á því að frávísunartillaga skuli lögð fram við þessa umræðu þegar ljóst er að frávísunartillaga var lögð fram við 1. umr. um málið og felld. Ég hygg að það sé ekkert í þingsköpum sem kemur beinlínis í veg fyrir þetta, en ég bendi hv. þingmönnum á að það er búið að taka afstöðu til þeirrar spurningar sem felst í frávísunartillögunni, það er búið að taka afstöðu til hennar hér í þinginu eftir ítarlegar rökræður, og það er óneitanlega sérstakt ef andstæðingar framgangs einhvers máls ætla að fara að leika þann leik hvað eftir annað, hugsanlega við allar umræður um mál, að leggja fram frávísunartillögur.

Þetta vildi ég taka fram, hæstv. forseti. Við víkjum reyndar að þessu, ég og hv. þm. Ólöf Nordal, í nefndaráliti okkar, en mér finnst rétt að taka þetta sérstaklega fram, vegna þess að það er eitt að leggja fram frávísunartillögu á einhverjum tilteknum forsendum og láta reyna á það hvort meiri hluti er fyrir því í þinginu eða ekki og annað að berja höfðinu við steininn og gera það aftur og aftur. Ég er ekki að segja að mönnum sé það bannað, en það er óneitanlega dálítið kyndugt, sérstaklega þegar fyrir liggur að málið hefur verið borið upp með þessum hætti.

Frávísunartillagan sem var lögð hér fram 20. janúar var að vísu fáorðari en nefndarálit meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, en efnisatriðin eru þau sömu, rökin eru þau sömu, ef hv. þingmenn vilja lesa þau skjöl saman. Þannig að það er búið að taka afstöðu til þess. En ef menn vilja fara að leika þann leik að takast á við frávísunartillögu aftur verður bara svo að vera. Við skulum sætta okkur við það, en vekjum athygli á því að þetta er auðvitað mjög sérkennilegt.

Það er tvennt í þessu — annars vegar það hvort menn eru þeirrar skoðunar að máli eigi að vísa frá af því það gangi ekki upp, það sé ekki hægt að gera það sem felst í málinu eða tillögunni og því eru þeir efnislega á móti því. Tekist var á um það hér við 1. umr. um málið 20. janúar, það var tekist á um það. Við heyrðum ræðurnar um það að Alþingi gæti ekki tekið ákvörðun af því tagi sem þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir. Við heyrðum það, heyrðum þau sjónarmið. Við fórum í atkvæðagreiðslu um það og munum hvernig sú atkvæðagreiðsla fór.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að dvelja lengur við þetta. Í upphafi viljum við taka það fram, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, að við teljum alveg ótvírætt eftir yfirferð málsins að Alþingi geti tekið ákvörðun um afturköllun ákæru. Við teljum að það sé ótvírætt. Í máli tveggja framsögumanna nefndarálita, hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur og Magnúsar Norðdahls, hefur verið slegið úr og í með þetta. Í nefndaráliti meiri hlutans, sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir mælti fyrir, er sagt að Alþingi geti gert þetta. Það er svolítið snúnara hjá hv. þm. Magnúsi Norðdahl sem hefur auðvitað fullan rétt til að halda fram sjónarmiðum sínum, en er miðað við nefndarálit hans orðinn nokkuð einmana í þeirri afstöðu því að ekki tóku hinir í meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar undir þau sjónarmið sem hann setur þar fram. Þeir byggja mál sitt á öðrum forsendum. Nóg um það.

Við teljum sem sagt að það sé ótvírætt komið fram í málinu, staðfest, að Alþingi hefur heimild til að taka þessa ákvörðun, en við viðurkennum að það hlýtur að vera spurning sem við hér í þinginu þurfum að spyrja okkur hvort Alþingi eigi að gera það. Er það svo að 63 þingmenn, hver fyrir sig, meti stöðuna svo að afturkalla eigi ákæruna? Er það svo? Það er spurningin sem við þurfum öll að spyrja okkur. Það er spurningin. Við erum búin að segja: Þetta er hægt. Þá er spurningin: Eigum við að gera það? Metum við stöðuna svo að við eigum að gera það? Því verður hver og einn að svara fyrir sig. Ég viðurkenni að menn geta komist að mismunandi niðurstöðum um það.

Við færum fram rök fyrir því, sjónarmið — höfum reyndar sætt því að þau séu kölluð ómálefnaleg, en engu að síður liggja þau hér fyrir. Ég hef rökstutt sjónarmið mín með tilteknum hætti og fleiri þingmenn, ekki allir með sama hætti, en menn komust að niðurstöðu.

Hæstv. innanríkisráðherra hefur rökstutt sjónarmið sín. Hv. þm. Atli Gíslason hefur rökstutt sjónarmið sín. Þeir gera það með öðrum hætti en ég mundi gera, en ég vil ekki kalla sjónarmið þeirra ómálefnaleg, mér finnst það ekki sanngjarnt eða réttmætt. Það hefur ekkert komið fram í málinu sem gefur mér tilefni til þess að ætla að hv. þm. Atli Gíslason eða hæstv. innanríkisráðherra séu að komast að niðurstöðu á ómálefnalegum forsendum. Þeir hafa þvert á móti rökstutt niðurstöðu sína með málefnalegum hætti. Þeir hafa gert það. Aðrir þingmenn þurfa ekki endilega að vera þeim sammála, en þeir geta ekki bara afgreitt þetta sem ómálefnalegt. Það finnst mér mikilvægt að við höfum í huga.

Þegar við göngum til atkvæða um þetta er þetta fyrst og fremst spurningin um það hvort við eigum að afturkalla ákæruna fyrst við getum það. Því verður hver að svara fyrir sig, hvert okkar fyrir sig. Við verðum að sjá niðurstöðuna úr því. Ég veit ekki hver sú niðurstaða verður. Það getur vel verið að meiri hlutinn í dag sé annar en hann var fyrir tveimur mánuðum, en við verðum að láta á það reyna.

Við höfum í nefndaráliti okkar vikið að ýmsum þáttum. Það er ekki þörf fyrir mig, held ég, hæstv. forseti, að rekja í löngu máli það sem við skrifum í nefndarálitinu um heimildina til að afturkalla ákæruna. Ég vísa bara til þess sem segir í nefndarálitinu um það efni. Við erum eindregið þeirrar skoðunar að heimildin sé til staðar og við tökum sérstaklega fram, og kannski er sérstaklega ástæða til að nefna það í ljósi orða sem fallið hafa hér í umræðunni í dag, að það sé ekki svo að neitt í lögum geri það að verkum að Alþingi geti ekki sjálft haft frumkvæði að slíkri afturköllun.

Því hefur verið haldið fram að Alþingi kunni að geta afturkallað ákæru en Alþingi geti hins vegar ekki haft frumkvæði að slíkri ákvörðun. Hvar segir eitthvað um það? Hvar kemur eitthvað fram um það? Í hvaða lagaákvæði er vísað um það? Í nefndaráliti meiri hlutans er vísað til 16. gr. laga um landsdóm. Það er ekkert um það þar. Ekkert.

Það er að vísu ljóst að saksóknari Alþingis getur beint ábendingum eða tillögum til Alþingis um að gera einhverjar breytingar á ákæru, bæta við hana, draga úr henni, fella hana niður. Hann getur gert það. Honum er það heimilt, en það kemur hvergi neitt fram um það að frumkvæði saksóknara Alþingis, sem, eins og bent hefur verið á hér í umræðunni áður, hafði ekki frumkvæði að ákærunni í upphafi, mótaði hana ekki, samdi hana ekki, það var þingið sem gerði það. Það kemur hvergi neitt fram um að það sé skilyrði að saksóknari Alþingis hafi frumkvæði að því að Alþingi afturkalli ákvörðun eða breyti ákærutillögu að einhverju leyti. Kemur ekkert fram um það. Hvergi. Það sem er sagt hér um það í nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndar er þess vegna algjörlega út í bláinn. Það er utan þessa máls, það er óviðkomandi.

Þingmenn hafa almennt rétt til þess að flytja mál, flytja frumvörp eða tillögur um þau mál sem þeir kjósa. Hvað takmarkar þann rétt? (Gripið fram í.) Stjórnarskráin? Rétt. Hvaða takmarkanir í stjórnarskránni útiloka að hér sé flutt tillaga um afturköllun ákæru? Hvaða ákvæði í stjórnarskránni takmarka það? Hvar er það ákvæði?

Það er ekki svo að allt sé leyfilegt sem ekki er bannað. Hins vegar þegar kemur að ákveðnum spurningum, eins og t.d. þeirri almennu heimild þingmanna til að flytja mál um hluti sem Alþingi getur tekið ákvörðun um, þá þarf skýra takmörkun til þess að útiloka það. Það þarf að vera takmarkað eða girt fyrir það með skýrum hætti af því þarna er um að ræða almenna reglu. Meginreglan er sú, hv. þingmenn, að þingmenn geta flutt mál af hvaða toga sem er, lagafrumvörp eða þingsályktunartillögur. Er það ekki svo? Ef við ætlum að skerða það vald, gera undantekningu frá þeirri meginreglu, þarf sú undantekning ekki að koma fram með skýrum hætti? Auðvitað. Auðvitað þarf sú undantekning að koma fram með skýrum hætti.

Ég ætla ekki að fjalla nánar um þetta. Ég vísa bara í það sem við segjum í nefndaráliti um þetta efni.

Hér hefur aðeins verið vikið að öðru atriði sem við gerum að umtalsefni í nefndaráliti okkar sem er greinarmunur á afturköllun ákæru og niðurfellingu saksóknar. Ég ætla ekki að staldra lengi við það, bendi bara á að þessi tillaga gengur út á afturköllun ákæru en ekki niðurfellingu saksóknar, þess vegna er ekki hægt að líta til þeirra skilyrða sem eru fyrir niðurfellingu saksóknar þegar metið er hvort afturkalla skuli ákæru. Það er verið að vísa til tveggja ólíkra hluta.

Við vísum líka til þess, af því að hv. þm. Magnús Norðdahl gerði það að umtalsefni hér áðan, að 29. gr. stjórnarskrárinnar felur í sér ákveðna meginreglu. Hver er hún? Meginreglan í 29. gr. er sú að forseti geti fellt niður saksókn, náðað eða veitt almenna sakaruppgjöf í hverju sem er. Það er almenna reglan. Sú almenna regla er takmörkuð með einni undantekningu sem lýtur að máli sem höfðað er gegn ráðherra eða fyrrverandi ráðherra á grundvelli laga um landsdóm. Það er undantekningin sem er tilgreind. Þar er sagt: Þar getur forseti ekki gert þetta upp á eigin spýtur, þar þarf hann samþykki meiri hluta Alþingis.

Þessari reglu hafa sumir viljað snúa á hvolf þannig að í henni felist regla um það að Alþingi geti aldrei haft frumkvæði að því að afturkalla ákæru eða það má skilja ummæli í greinargerðum og ræðum á þann veg að þetta sé tæmandi grein varðandi heimild til Alþingis til þess að skipta sér af þessum málum. Þá spyr ég: Passar það saman við annað sjónarmið sem hefur verið sett fram um það að Alþingi geti, ef tillaga kemur frá saksóknara Alþingis, afturkallað ákæru? Er samræmi í því? Ef 29. gr. hefur svona víðtækt gildi í þessu sambandi, útilokar það ekki að Alþingi geti samkvæmt tillögu saksóknara Alþingis afturkallað mál?

Ég tek varlega til orða, hæstv. forseti, ég held að hvort tveggja sé lögfræðileg hártogun. Ég held það. Ég get ekki verið sammála þeim niðurstöðum. Ég bendi bara á að í 29. gr. felst sú almenna regla að forseti geti veitt sakaruppgjöf, fellt niður saksókn eða veitt almenna sakaruppgjöf og það getur hann gert í öllum tilvikum nema þeim þegar um er að ræða ráðherra- og landsdómsmál, þá verður hann að fá samþykki meiri hluta Alþingis. Það segir ekkert um það og tekur með engum hætti fyrir þann möguleika að Alþingi geti sjálft — einstakir þingmenn — haft frumkvæði í þessum efnum. Ég held að það sé fullkominn misskilningur að halda því fram í þessu máli, hæstv. forseti, að annars vegar ákvæði 16. gr. landsdómslaganna, um tiltekin tilvik þegar saksóknari getur beint tilmælum til Alþingis, og hins vegar 29. gr., sem fjallar raunar um allt aðra hluti að meginstefnu til, komi í veg fyrir, skerði eða takmarki þá almennu heimild sem þingmenn hafa til að taka upp mál hér, bera þau fram, og Alþingi eftir atvikum til að samþykkja, ef við erum á annað borð þeirrar skoðunar að Alþingi geti afturkallað ákæru, sem er auðvitað það sem við vorum að fjalla um hér áðan og flestir, ef lesa má nefndarálitin, eru sammála um að sé hægt.

Þetta vildi ég nefna, hæstv. forseti. Ég ætla að nefna það að lokum að við tilgreinum í nefndaráliti okkar, og vísum þar raunar í greinargerð með hinni upprunalegu tillögu, nokkur atriði sem horfa öðruvísi við í dag en þegar ákærutillagan var lögð fram og raunar þegar atkvæði voru greidd um ákæru á hendur fyrrverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde.

Í fyrsta lagi það sem margnefnt er í þessari umræðu að í stað þess að ákæra fjóra ráðherra, eins og meiri hluti þingmannanefndarinnar lagði til á sínum tíma, varð niðurstaðan sú að aðeins einn var ákærður. Það er rétt, sem fram hefur komið í máli manna, að landsdómur, sem fjallaði í frávísunarúrskurði sínum um formhlið mála, telur að þetta sé ekki formlega óheimilt.

Það er ekki formlega óheimilt að ákæra einn en ekki þá fjóra sem upphaflega tillagan gekk út á, en efnislega getur þetta haft áhrif á afstöðu manna. Það hefur komið fram í þessari umræðu ítrekað að þetta hefur veruleg áhrif á það mat — það huglæga mat — sem lá til grundvallar því hvernig þingmenn greiddu atkvæði hér í atkvæðagreiðslunni 28. september 2010. Landsdómur fjallaði um formið en ekki efnið.

Formlega taldi landsdómur það ekki frávísunarástæðu að aðeins einn var ákærður en ekki fjórir, en það getur haft áhrif á mat manna, þingmanna, sem fara með ákæruvaldið, hvernig sú mynd blasir við.

Annað er það sem nefnt er í nefndaráliti okkar og greinargerð með tillögunni að frá því 2008, jafnvel frá hausti, frá september 2010, höfum við allt aðra mynd af hinni alþjóðlegu fjármálakreppu en við höfðum þá. Við höfum allt aðra mynd, bæði af því hvernig hún lýsir sér, hverjar birtingarmyndir hennar eru, hvaða áhrif hún hefur haft bæði hér innan lands og annars staðar. Kannski vitum við líka meira um orsakirnar. Við vitum miklu meira um stöðu mála. Það getur haft áhrif á afstöðu manna og mat manna á því hvort líklegt sé að Geir H. Haarde verði sakfelldur í þessu máli. En eins og menn muna er forsenda þess að ákæra sé gefin út og samþykkt í þessum málum að menn telji meiri líkur á sakfellingu en sýknu.

Það hvað við höfum séð gerast í öðrum löndum og áhrifin sem við höfum séð hér innan lands getur allt haft áhrif á þetta mat. Ég held að það sé óhjákvæmilegt.

Ég vil að lokum nefna það í þessu samhengi að auðvitað breytir það málinu að færri ákæruatriði eru inni núna eftir frávísun Hæstaréttar í október 2011. Það eru færri atriði. Það getur haft áhrif á mat manna á því hvort líklegt sé eða ólíklegt að ákæran leiði til sakfellingar eða sýknu.

Allt þetta, hæstv. forseti, eru atriði sem ég get ekki séð annað en séu fullkomlega málefnaleg og geta leitt til þess að þingmenn, þegar þeir taka efnislega afstöðu til málsins, komist að málefnalegri niðurstöðu. Við getum verið ósammála um þessa hluti. En við getum ekki, eins og mér finnst gert í nefndaráliti meiri hlutans, slegið þetta út af borðinu sem ómálefnaleg sjónarmið. Mér finnst það alls ekki.

Hæstv. forseti. Þó að við látum okkur það lynda að þessi frávísunartillaga komi fram og við greiðum atkvæði um hana, skora ég á hv. þingmenn að fella hana, fella frávísunartillöguna og styðja þá þingsályktunartillögu sem við mælum hér fyrir og mælum hér með. Við teljum að margvísleg veigamikil rök séu komin fram sem eiga að stuðla að því að þingmenn samþykki hana. Við teljum mikilvægt að sú niðurstaða liggi fyrir sem allra fyrst, enda ljóst að að óbreyttu hefjast réttarhöld í næstu viku. Við minnum á að málið hefur verið töluvert lengur í meðförum þingsins en upphaflega ákærutillagan, svo vísað sé í það, sem var frá upphafi til enda samtals 17 daga í málsmeðferð hér í þinginu. Ég hygg að þessi tillaga hafi legið hér inni frá því 16. desember, tekin til 1. umr. 20. janúar, þannig að síðan eru fimm vikur.

Þetta vildi ég segja um þetta mál, hæstv. forseti, en vísa að öðru leyti til ítarlegs nefndarálits sem við höfum lagt hér fram.