140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[17:20]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Framan af hélt ég að ég yrði bara sammála hv. þm. Álfheiði Ingadóttur. Það er alveg rétt að í nefndarálitinu segir að Alþingi hafi formlega heimild til afturköllunar og ég tel mig hafa vísað til þess að meiri hlutinn hafi komist að þeirri niðurstöðu. Ég er sammála því mati, Alþingi hefur heimildina til afturköllunar. Ég er líka sammála því að þegar Alþingi ákveður hvort það vill nýta sér heimildina til afturköllunar þarf það að meta efnislegar forsendur fyrir slíkri afturköllun. Við erum alveg sammála um það.

Ég held hins vegar að við kunnum að hafa ólíkar skoðanir á öðru, ég sé hvergi það skilyrði sett fram í lögum að slík ábending eða tillaga þurfi að koma frá saksóknara Alþingis. Það kemur hvergi fram og það er ekkert í lögum eða stjórnarskrá sem takmarkar rétt þingsins sjálfs til að taka þetta upp.