140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[17:21]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt, það er ekki allt sem skrifað stendur í lögum og einmitt þess vegna höfum við verið að skoða hvað fræðimenn hafa annars vegar skrifað um þetta álitamál og hins vegar hvað menn hafa skrifað í Fréttablaðið um þetta.

Mig langar til að víkja aðeins að því sem við erum þá sammála um, við hv. þingmaður, að það þurfi að vera efnislegar forsendur fyrir afturköllun af þessu tagi. Þá langar mig til að vísa í nefndarálit hv. þingmanns og Ólafar Nordal sem mynda 2. minna hluta í nefndinni. Á bls. 3 eru taldar upp þrjár ástæður sem sagðar eru efnislegar og hv. þingmaður fór yfir:

Það að einn hafi verið ákærður en ekki fjórir. Það hefur legið fyrir í 17 mánuði.

Það að meiri upplýsingar liggi nú fyrir en 28. september 2010. Já, og það er þá dómsins að meta að hvaða leyti þær nýju upplýsingar hafa áhrif.

Það að efnislegt inntak hafi breyst verulega. Landsdómur er hins vegar alls ekki á því máli eins og sést á úrskurðum sem kveðnir voru upp vegna frávísunarkröfu þar um.

Í niðurstöðu hjá hv. þingmönnum segir að margar málefnalegar ástæður séu fyrir því að afturkalla ákæruna. Ég hef farið yfir þessar þrjár ástæður sem þar eru raktar og ég tel þær ekki efnislegar. Síðan er dregið saman í þessari niðurstöðu hvað það er sem hv. þingmenn telja efnislega niðurstöðu.

Með leyfi forseta segir hér:

„Á hinn bóginn hefur komið fram að ýmsir þeirra sem studdu ákærutillöguna á sínum tíma telja forsendur breyttar og meta málið með öðrum hætti nú.“

Hin efnislega forsenda er sem sagt að einhverjir kunni að hafa skipt um skoðun en, frú forseti, það er að mínu mati ekki efnisleg ástæða.