140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[17:25]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég er sammála hv. þm. Atla Gíslasyni um það álit á niðurstöðum Alþingis í september 2010 að þar hafi átt að vera allir, einn eða enginn. Ég skil hins vegar ekki rökin um það að málið ógildist nánast af sjálfu sér með einhverjum hætti við það að einn maður stendur fyrir landsdómi og ekki fjórir, eins og kemur fram í máli hv. þingmanns.

Ég spyr þess vegna hvort það sé ranglega munað hjá mér að atkvæðagreiðslurnar hafi í raun og veru verið fimm þegar við sátum hér í september 2010, það hafi verið atkvæðagreiðsla um hvern hinna fjögurra og síðan hafi að lokum farið fram atkvæðagreiðsla um tillöguna svo breytta. Ef það er ekki rangminni hjá mér spyr ég: Telja hv. þingmaður og aðrir stuðningsmenn þessarar tillögu að forseti Alþingis hafi gerst sekur um mistök eða vanrækslu við það að hafa þetta svona? Ef það er verður auðvitað að grípa til einhverra ráða um forseta Alþingis. Það getur vel verið að menn finni það út, meiri lögspekingar hér en ég, að til þess séu einhverjar aðferðir. Það er ekki landsdómur en það kunna að vera einhverjar aðferðir til að knýja hann til þess að breyta rétt og ógilda ákvörðun hans aftur í tímann.

Ef þetta er ekki rangminni hjá mér og þingmaðurinn telur ekki að forseti Alþingis hafi gert mistök sé ég ekki betur í minni málfræðingslógík en að röksemdin um það að hér sé bara einn en ættu að vera fjórir sé fallin.