140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[17:32]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað er það algengt að menn séu ákærðir margir í sama máli (Gripið fram í.) og það er auðvitað svo að ákærutillagan var ein. Hér kom tillaga til þings frá meiri hlutanum í svokallaðri þingmannanefnd sem gerði ráð fyrir því að fjórir væru ákærðir, það var ein tillaga. Það er það sem ég er að tala um þó að ákærur síðan, ákæruskjöl séu gefin út á einstaklinga hver fyrir sig. (Gripið fram í: Þetta er rangt hjá þingmanninum.) [Frammíköll í þingsal.] Ég hafna þessum frammíköllum hérna frá órólegu deild Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. (Gripið fram í: Þetta er ekki órólega deildin.) Jú, mér sýnist það, þetta er órólegasta deildin. [Kliður í þingsal.] Þetta er hins vegar ...

(Forseti (RR): Forseti biður hv. þingmenn um að gefa þingmanninum tækifæri til andsvara.)

En ég spyr á móti hv. þm. Mörð Árnason, sem getur tekið til máls í umræðunni á eftir: Telur hann að þær vangaveltur sem hann er með hér um form atkvæðagreiðslunnar í september 2010 ráði úrslitum í þessu máli þegar þingmenn standa frammi fyrir því að meta hver fyrir sig hvort þeir vilja halda sig við ákæruna eða ekki? Telur hann að þetta sé meginatriðið? Ég nefni þetta sem eitt af fjölmörgum atriðum sem geti haft áhrif á mismunandi afstöðu einstakra manna. En er þetta form atkvæðagreiðslunnar sem hv. þingmaður gerir mikið mál úr hér aðalatriðið? Er það það sem ræður því að hv. þm. Mörður Árnason vill að haldið verði fast við ákæruna á hendur Geir H. Haarde að það hafi verið eitthvert ákveðið form á atkvæðagreiðslunni í september 2010?