140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[17:44]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var nokkuð sérkennileg ræða og margt sem kom mér á óvart í henni. Ég minnist þess til að mynda ekki að borist hafi út úr þingmannanefndinni að nauðsynlegt væri að kæra fleiri en þá fjóra fyrrverandi ráðherra sem nefndin gerði tillögu um, en nú heyrist mér hv. þingmaður hafa verið þeirrar skoðunar allan tímann. Enn fremur segir hann að það hafi verið afstaða hans að kæra hefði átt fjóra fyrrverandi ráðherra eða engan. Ég minnist þess heldur ekki að hv. þingmaður eða nokkur í þingmannanefndinni hafi komið með þau skilaboð hingað inn í salinn.

Ég var ein þeirra sem var, eins og ég held allir í salnum, nokkuð undrandi á þeirri niðurstöðu sem varð í þeirri atkvæðagreiðslu sem hér fór fram. En ég tel ekki að atkvæðagreiðsla í Alþingi breyti eðli máls þannig að það breytist í einhvern pólitískan skrípaleik. Ég hlýt að spyrja hv. þingmann: Telur hann að mögulegt hafi verið að bera upp tillögu um að kæra einhvern hóp fjögurra ráðherra eða jafnvel fleiri? Er að mati hv. þingmanns mögulegt að taka einhvern hóp fyrir sem slíkan en ekki sem einstaklinga?