140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[18:10]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það var vissulega flutt tillaga til rökstuddrar dagskrár þar sem dregnir voru fram þrír efnisþættir. Sú tillaga var felld. Kallað var eftir efnislegri umfjöllun um málið og samþykkt að fara í slíka umfjöllun. Hún hefur farið fram. Niðurstaða meiri hluta nefndarinnar er að málinu eigi að vísa frá. Það er niðurstaða af efnislegri umfjöllun um málið og það er talsverð breyting. Það hlýtur hv. þingmaður að viðurkenna.

Mig langar til að minna á, af því að ég gleymdi einu atriði áðan, að ef tillaga hv. þm. Bjarna Benediktssonar um afturköllun ákæru verður samþykkt er þessu máli ekki lokið, því miður verð ég að segja. Það er vegna þess að þá fer að líða frestur til endurútgáfu á ákæru, þrír mánuðir eða sex mánuðir eftir því hvernig menn líta á það. Samþykkt tillögu Bjarna Benediktssonar er þess vegna ekki lok á þessu máli, langt í frá. Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson kallaði eftir því áðan að kalla ætti eftir ákærum á fleiri aðila og það getur vel verið að tilefni verði til að taka það upp aftur. Ég er ekki viss um að við eigum að halda þeim leik áfram í þingsölum, við eigum að ljúka því verki sem farið var í að tillögu rannsóknarnefndar Alþingis og þingmannanefndarinnar og við eigum ekki að snúa frá því hér og nú.