140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[18:12]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var ekki tillaga rannsóknarnefndar Alþingis að Geir Haarde eða aðrir fyrrverandi ráðherrar yrðu dregnir fyrir landsdóm. Það var ekki tillaga hennar. Rannsóknarnefnd Alþingis hafði ekki það hlutverk að meta hvort draga ætti þá fyrir landsdóm eða ekki. Það er nauðsynlegt að hafa þetta á hreinu vegna þess að þessu er stundum ruglað saman.

Það varð auðvitað niðurstaða meiri hluta þingmannanefndarinnar að draga bæri fjóra ráðherra fyrir landsdóm, og það var um það sem tekist var á í þinginu, en það er ekki hægt að halda því fram að ákæra nú eða ákæra í september 2010 hafi verið óhjákvæmileg á grundvelli niðurstaðna rannsóknarnefndar Alþingis. Það er ekki hægt að fallast á það, hvað þá að þar hafi verið um að ræða tillögu rannsóknarnefndar Alþingis. En nóg um það.

Ég vek bara athygli á því, hæstv. forseti, út af orðaskiptum mínum og hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur, að nýja frávísunartillagan er í raun og veru byggð á öllum sömu forsendum og frávísunartillagan 20. janúar. Sömu efnisatriðin eru tilgreind. Svo maður haldi því til haga var tillagan til rökstuddrar dagskrár 20. janúar ekki byggð á því að málið væri ekki þingtækt, það var ekki sagt í henni. Sumir hv. þingmenn töluðu þannig en tillagan sem atkvæði voru greidd um var ekki byggð á því heldur á öðrum forsendum, sömu forsendum og við fjöllum um í dag. Ég get fallist á að menn í þessum sal geti komist að ólíkri niðurstöðu um hvort afturkalla beri ákæruna, ég get alveg viðurkennt að menn hafi mismunandi skoðanir á því. En mér finnst það ekki tilefni til frávísunar.