140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[18:38]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við getum verið sammála um að margt í þeim lögum sem víkja að landsdómi er eitthvað sem við mundum ekki vilja sjá í þeirri stjórnarskrá sem við erum að teikna upp hér, heldur að útfærslan yrði með allt öðrum hætti. Það þýðir ekki að lögin hafi alla tíð verið úrelt og séu þannig úrelt að okkur beri ekki að fara eftir þeim.

Ég held hins vegar að það sem skipti meginmáli í þessu atriði sé að við eigum að fara eftir þeim lögum og túlka þau á þann hátt sem stjórnlagaspekingar settu fram í skýringum sínum þegar var verið að setja þau lög hér inn í stjórnarskrá. Við höfum enga stöðu eða rétt til þess að vera að túlka það á einhvern allt annan máta en menn gerðu og settu fram á þeim tíma þegar lögin voru sett. Og þar sem lögin eru í gildi ber okkur auðvitað að fara eftir þeim, því að það er nákvæmlega það atriði sem kemur fram í máli fyrirspyrjanda, að við stöndum frammi fyrir þeirri hringavitleysu, ef ég má nota það orð, virðulegi forseti, að hér sé endalaus endurnýjun og breyting á þeim aðila, sem er ákæruvald, eftir því hvernig skipast með sæti, stöðu og hlutverk manna inni á þingi. Auðvitað gengur það engan veginn upp.

Þess vegna var það lykilatriðið að eftir að þingið hefur tekið ákvörðun um að vísa máli til landsdóms er málið úr höndum Alþingis.