140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[19:14]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hvað þetta síðasta atriði snertir er það í mínum huga bara enn eitt atriðið sem dregur fram hvers konar galli er á allri þessari umgjörð fyrir ákærumál á hendur fyrrverandi ráðherrum, einmitt að hér voru á sínum tíma varaþingmenn sem höfðu setið í örfáa daga og þurftu að taka afstöðu til ákæru á hendur fjórum ráðherrum. Þetta er það sem ég var að vísa til að prófessor Stefán Már Stefánsson skrifaði um í því fylgiskjali sem ég las upp úr áðan. Menn höfðu engar faglegar forsendur til að taka ákvörðun um ákæru einmitt af þessari ástæðu. Mér finnst þetta ekki draga neitt annað fram en að það var rangt að leggja af stað og menn hefðu betur látið það eiga sig.

Varðandi frumkvæðisréttinn nefndi ég það í mínu máli áðan að hans hefur hvergi verið getið í fræðunum. Hvergi hefur verið fjallað sérstaklega um það að frumkvæðisrétturinn, eins og hv. þingmaður kýs að kalla það, hvíli á einum stað en ekki öðrum. Það sem ég er að kalla sérstaklega eftir og gerði reyndar í andsvari fyrr í dag við hv. þingmann er þetta: Hvaða efnislegu rök eru til staðar fyrir því að Alþingi, sem fer skýrlega með ákæruvaldið, geti ekki haft þetta frumkvæði eins og hv. þingmaður kýs að líta á það? Hvaða efnislegu rök eru fyrir því?

Ef saksóknarinn fer ekki með ákæruvaldið og hefur aldrei lagt sjálfstætt mat á hvort meiri líkur séu til sektar en sýknu og hefur margoft tekið fram í umræðum um þetta mál að það sé ekki hans að leggja mat á það, hvers vegna ætti saksóknarinn þá að fara að eiga eitthvert slíkt frumkvæði? Þetta er ekki saksóknari samkvæmt opinberri skipun, hann er sérstaklega kosinn af Alþingi. Þetta er framlenging á þessu hlutverki Alþingis, þ.e. á ákæruvaldi Alþingis, hann er kosinn af Alþingi og gerir það sem Alþingi felur honum að gera.

Ég kalla eftir því hvaða (Forseti hringir.) efnislegu rök kynnu að vera fyrir því að sá sem fer klárlega með ákæruvaldið geti ekki átt frumkvæði.