140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[19:16]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Magnús M. Norðdahl) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það má fallast á sumt af því sem hv. þm. Bjarni Benediktsson sagði. Það eru gallar á lögunum nr. 3/1963, á því er enginn vafi og á það hefur oft verið bent. Ég held að menn séu mjög meðvitaðir um það enda hefur verið hugað að breytingum á þeim. En það breytir ekki þeirri staðreynd að við sitjum uppi með þessi lög og okkur ber að fara eftir þeim eins og þau voru skrifuð og eins og rétt er talið að túlka þau. Svo mikið er víst.

Í því speglast einmitt kannski fáránleikinn í þessu máli, ef maður orðar það þannig, að hér hafa sest niður á sínum tíma 63 þingmenn og tekið efnislega ákvörðun um að það skyldi ákært. Fræðimenn eldri hafa sagt að það sé svona einskiptisaðgerð að menn ákveði þetta. Síðan komi það ekki til afgreiðslu aftur, m.a. vegna þess að svona meiri hluti getur oltið mjög skyndilega. Ég fer yfir það í nefndaráliti mínu að það er nóg að kallaður sé inn á þingið einn eða tveir varaþingmenn og þá sé hægt að færa svona tillögu fram að nýju, jafnvel hægt að samþykkja það að falla frá ákærunni, síðan fara þeir af þingi, gamli meiri hlutinn er kominn inn aftur og þá er hægt að samþykkja það að fara aftur í ákæru. Þetta er fáránleikinn í málinu.

Ég held að þessir eldri fræðimenn hafi gert sér fulla grein fyrir þessu og það séu rökin þeirra. Það er líka, til að bæta ofan í þetta, hægt að ímynda sér það að heilar þingkosningar gætu snúist um meðferð dómsmáls. Það er hægt að rjúfa þing í kjölfar ákvörðunar eins og þessarar, boða til nýrra kosninga, láta kosningarnar snúast um hvort eigi að ákæra menn eða ekki og taka ákvörðun þegar þing er komið saman. Þetta er fáránleikinn í málinu. Þess vegna held ég að menn hafi haft rétt fyrir sér þegar þeir sögðu einfaldlega: Þingið er úr málinu, öll skynsemisrök mæla með því.