140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[20:45]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður fer undan í flæmingi og svarar ekki því sem til hans er beint að mínu viti. Varðandi réttindi sakbornings í þessu máli hefur landsdómur tekið afstöðu til þess máls sérstaklega. Ég spurði hvort þingmaðurinn væri ósammála þeirri niðurstöðu landsdóms. Hann svaraði ekki þeirri spurningu.

Varðandi hitt, að kanna á nýjan leik afstöðu þingmanna vegna þess að ný gögn eða ný sjónarmið kunni að hafa komið fram, er það auðvitað þannig að Alþingi hefur falið saksóknara að fara með saksóknina í málinu. Og saksóknari hefur ekki komist að þeirri niðurstöðu að neitt hafi breyst í þessu máli. Ekki hefur saksóknarnefndin sem Alþingi hefur kosið til að fara með þetta mál ásamt saksóknara mælst til þess við Alþingi þannig að hér er verið að segja að bara vegna þess að einhverjum þingmanni dettur í hug að skoðanir kunni að vera orðnar breyttar í þingsal skuli láta á það reyna. Þar af leiðandi er verið að skrifa upp á (Forseti hringir.) að það ætti að kanna afstöðu þingheims til máls af þessum toga með reglulegum hætti.