140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[21:19]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir spurði: Af hverju má ekki ganga til atkvæða um tillöguna? Af hverju er verið að flytja hér frávísunartillögu? Hvað liggur að baki? Ástæðan er einföld. Þetta er rökrétt niðurstaða af efnislegri umfjöllun nefndarinnar, sem sé þeirri að í ljós kom við umfjöllun nefndarinnar að það væru ekki efnislegar forsendur, engar nýjar málsástæður, ekki neitt sem hægt er að benda á efnislegt í þá veru að það beri að afturkalla ákæruna ef Alþingi hefur þetta vald sem við þurfum ekkert að deila um. Niðurstaðan er að það eru ekki efnislegar ástæður.

Ég sagði hér fyrr í dag og endurtek núna: Ég tel það ekki efnislega ástæðu þó að einstaka þingmenn hafi skipt um skoðun eða það verði einhverjar mannabreytingar í þingsal. Það kallar á mikla lagaóvissu og mikinn hringlandahátt ef ætti að fara að því í hvert sinn.

Ég bendi á að ef Alþingi hefur vald til að afturkalla ákæru er það ekki geðþóttavald heldur þarf það að byggjast á efnislegum málsástæðum. Þær ástæður eru ekki fyrir hendi. Saksóknari Alþingis og varasaksóknari Alþingis hafa staðfest að svo sé ekki að þeirra mati, það eru okkar sérfræðingar. (Gripið fram í.) Það hefur verið staðfest fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og er bókað, bæði í fundargerðum (Forseti hringir.) og í meirihlutaáliti (Forseti hringir.) nefndarinnar. Það er ósæmilegt að bera brigður á (Forseti hringir.) slíkt.