140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[21:25]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég vil segja í upphafi að það er ekki víst að ég geti lokið máli mínu í einum teig, þeir kunna að verða fleiri, við sjáum til. Ég stend auðvitað við þau tímamörk sem hér er um að ræða.

Ég vil fyrst segja vegna orðaskipta minna og hv. þm. Bjarna Benediktssonar áðan að ég harma það að hann skuli ekki sjá sér fært að vera við þessa umræðu. Það er auðvitað eðlilegt því að nú eru sjónvarpsvélarnar fjarri og þingmaðurinn hefur mikilvægari hnöppum að hneppa en að ræða tillögu sína hér. Ég hefði þó talið það algjörlega sanngjarnt, miðað við það mikilvægi sem hann og flokkur hans hefur gætt þetta mál, að við hefðum við hann að tala nú þegar komið er fram í síðari hluta, líklega, seinni umræðunnar um þetta mál.

Við töluðum svolítið um plan umræðunnar í framhaldi af orðfæri um það mál. Ég vil um það segja að ég kann því ekki að hv. þm. Bjarni Benediktsson eða aðrir fari með dylgjur um þetta efni, dylgjur um undirmál svo orðrétt sé vitnað í Bjarna Benediktsson, sem hér hafi farið fram á vegum Samfylkingarinnar til að hagræða úrslitum í atkvæðagreiðslunni. Ég kalla eftir því frá hv. þm. Bjarna Benediktssyni eða öðrum sjálfstæðismönnum eða þeim sem hafa haldið þessu fram að skýra mál sitt, segja okkur hvaða undirmál það eru og hvernig þau fóru fram. Ég vil gjarnan vita ef um undirmál væri að ræða hvaða þátt Sjálfstæðisflokkurinn átti í þeim. Var það svo að sjálfstæðismenn, eins og sagði í Reykjavíkurbréfi nýlegu í Morgunblaðinu, hefðu sent einhvern sérstakan erindreka til Samfylkingarinnar til einhvers konar samninga sem ekki hefði verið staðið við? Ekki varð ég var við það. Ég tel að meðan þetta er ekki skýrt, á meðan ekki eru færðar á þetta … (Utanrrh.: Ekki var samið við utanríkisráðherra.) Ekki var samið við utanríkisráðherra, kemur hér fram, þannig að þá er varla mörgum öðrum til að dreifa, hugsanlega einhverja aðra ráðherra. Meðan þetta kemur ekki fram er Bjarni Benediktsson og þeir sem þessu fram halda menn að minni.

Mönnum kunna að þykja þetta fullmiklar tilfinningar í máli sem er uppfullt af allt öðrum hlutum en þessum. En ég verð að segja að þetta var töluvert hlutverk, töluvert verkefni sem við gengum til á haustdögum 2010 í fullkominni alvöru og með þeim vitsmunum og þeim dugnaði sem manni var laginn á þeim tíma. Ég kann ekki við að það verk sé með þessum hætti troðið í svaðið.

Svo er það auðvitað sérkennilegt að formaður Sjálfstæðisflokksins skammtar einum eitt og öðrum annað. Hann skammar Vinstri hreyfinguna – grænt framboð fyrir að hafa tekið flokkslega afstöðu í málinu, en gleymir því að 16 þingmenn Sjálfstæðisflokksins gerðu nákvæmlega allir það sama, svo skammar hann Samfylkinguna fyrir það að hafa skipst í fjóra parta, sem Samfylkingin vissulega gerði og fyrst og fremst auðvitað í tvo, en í heildina held ég að hafi verið fjórir í atkvæðagreiðslunni. Hvort tveggja er tortryggilegt og ljótt og í ósamræmi við það sem Sjálfstæðisflokkurinn gerir.

Fyrst, forseti, vil ég fara yfir forsendur málsins. Það er auðvitað búið að fara nokkuð yfir þær, en samkvæmt þingsályktunartillögunni sjálfri eru forsendur málsins sagðar þær að margt hafi komið fram, en í raun og veru hefur ekkert komið fram sem breytir málinu. Í tillögunni er nefnt og hér í ræðum að breyttar forsendur séu í Icesave-málinu. Það er auðvitað röksemdafærsla sem heldur ekki vatni. Hins vegar eru menn núna hættir að tala um neyðarlögin, það var gert í fyrri umræðunni og gekk illa. Það er talað um hina alþjóðlegu kreppu, en það vissum við líka í september 2010 og höfum vitað allan tímann, að vandræðin á Íslandi sköpuðust að hluta til af alþjóðlegri kreppu, voru partur af henni.

Því hefur verið haldið fram að ekki hafi verið annað hægt, ekki hafi verið hægt að bjarga Íslandi við á þeim tíma sem ríkisstjórn Geirs Haardes hafði til þeirra hluta. Margt bendir til að það sé rétt, ekki hafi verið hægt að koma í veg fyrir hrunið á Íslandi, en það gengur fram af sjálfri rannsóknarskýrslu Alþingis að með mörgum hætti hefði verið hægt að milda það áfall sem hrunið olli okkur, með ýmsum hætti hefði verið hægt að koma hlutunum betur fyrir. Það er sú vanræksla, vanræksla, vanræksla sem þrír ráðherrar verða fyrir í rannsóknarskýrslu Alþingis sem er undirstaða þess máls sem hér var hafið og endaði með því að Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, skipstjórinn á skútunni, var sendur fyrir landsdóm þar sem hann á nú að verja hendur sínar frá 5. mars næstkomandi.

Svo er því líka haldið fram að ekki hafi allir verið settir fyrir landsdóminn. Það er rétt, en það var eins og rakið er niðurstaða Alþingis, hvað sem okkur finnst um hana, og það voru úrslit úr fimmtu atkvæðagreiðslunni í málinu að Alþingi tók þessa ákvörðun, líka þeir sem nú eru sagðir hafa skipt um skoðun, líka þeir sem harma sinn hlut og telja sig með einhverjum hætti hafa verið svikna, líklega af forseta Alþingis því að það var hann sem ákvað atkvæðagreiðsluna og skipulagði hana. Þó hefur það ekki komið fram í svörum við spurningu sem ég haft uppi í andsvörum og enn þá hefur ekki nokkur sem ég hef spurt sakað forseta Alþingis beinlínis um það, og eins og ég hef áður sagt í dag, gerði enginn athugasemd við atkvæðagreiðsluna á sínum tíma. Þessi rök halda heldur ekki vatni.

Það er sagt að þingmenn hafi skipt um skoðun. Hv. þm. Bjarni Benediktsson sagði í Kastljósi í kvöld að mestu máli skipti í þessu máli að nokkrir þingmenn hefðu skipt um skoðun. Það var athyglisverð yfirlýsing, vegna þess að þá voru önnur rök lægra sett. Þetta væri aðalmálið. Það er fróðlegt fyrir forsögu málsins að heyra þessa fullyrðingu Bjarna Benediktssonar vegna þess að ekkert er minnst á þessa staðreynd í þingsályktunartillögunni eða í greinargerðinni með henni. Það sem skiptir mestu er ekki talið fram í greinargerð með tillögu til þingsályktunar um afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Hv. þm. Bjarni Benediktsson og aðrir sjálfstæðismenn skulda okkur skýringar á því. Var þetta komið í ljós þegar tillagan var samin? Höfðu menn gefið sig fram við Bjarna Benediktsson eða aðra sjálfstæðismenn og sagt frá því að þeir hefðu skipt um skoðun? Hverjir voru það? Vegna þess að ef þetta skiptir mestu hlýtur það að hafa verið ljóst þegar tillagan var sett fram, enda eru rökin að öðru leyti, hvað sem þessum líður, það rýr og klén að tillagan hefði sennilega aldrei verið sett fram ef ekki væri þetta, sem hlýtur að hafa legið ljóst fyrir, að þingmenn hefðu skipt um skoðun. Og hv. þm. Bjarni Benediktsson skuldar okkur skýringu á því hverjir það voru sem gáfu sig fram við hann. Hvernig vissi hann af því að þingmenn höfðu skipt um skoðun í þessu?

Svo er auðvitað annað mál hvort þessi rök eru tæk og í umræðunum hér hefur það verið rætt. Ég er enginn lokadómari um það, en það er auðvitað þannig að Alþingi er ekki ferðalag 63 manna yfir holt og hæðir. Alþingi er ekki heimskautaferð á norðurpólinn í hálft ár þar sem menn deila fram og aftur um það hvert eigi að fara og hve lengi eigi að vera. Alþingi er stofnun sem talar einum rómi. Það er skrýtið af því menn eru alltaf að rífast hérna, en í raun og veru talar Alþingi einum rómi. Það er með atkvæðagreiðslu. Og eftir hana skiptir ekki máli hvað voru margir í meiri hlutanum, hvað voru margir í minni hlutanum, hvað margir mættu ef nægilega margir mættu til að atkvæðagreiðslan væri gild, heldur hvað Alþingi sagði. Sagði Alþingi já eða sagði Alþingi nei? Samþykkti Alþingi lögin? Kaus Alþingi mennina?

Auðvitað koma þau mál hér aftur og aftur upp á þinginu þar sem tímarnir breytast og skoðanir manna og Alþingi samþykkir í dag annað en það samþykkti í gær. Lög hafa verið sett hér frá því að Kristján konungur IX. kom hér og rétti okkur stjórnarskrána, eins og hann er sýndur með hægri höndina fram fyrir framan Stjórnarráðið. Auðvitað er það svo að ný lög nema úr gildi eldri lög og þingsályktunartillögur eru gerðar sem stangast á við þingsályktunartillögur sem áður hafa verið gerðar, vegna þess að tímarnir breytast og menn skipta um skoðun.

Hins vegar eru líka til þau mál á Alþingi þar sem Alþingi tekur afstöðu í eitt skipti fyrir öll um tímabundna hluti. Ágætt dæmi um slík mál eru fjárlög sem eru samþykkt á hverju einasta þingi og eru lögð fram í upphafi þings. Getur verið, forseti, að þegar menn skipta um skoðun, sjá eftir því sem þeir hafa gert við fjárlagaafgreiðsluna, sé ástæða til að leggja fram fjárlagafrumvörp? Að nema úr gildi fjárlögin sem voru samþykkt rétt fyrir jólin og byrja á öðrum fjárlögum vegna þess að hv. þingmenn Mörður Árnason, Valgerður Bjarnadóttir og Pétur Blöndal hafi skipt um skoðun (Gripið fram í.) á afgreiðslu sinni á fjárlögunum eftir miklar samræður og hvatningar frá kjósendum og utan úr heimi? Auðvitað er það ekki þannig. (Gripið fram í: Ekki fjárlögum.) Með sama hætti er það þannig, forseti, að hér er um að ræða ákvörðun sem Alþingi getur ekki tekið aftur. Það sé ósköp einfaldlega ekkert vit í því að hægt sé að kalla aftur þessa málshöfðun núna, hefja hana á ný eftir mánuð og hætta henni aftur eftir einn mánuð í viðbót.

Ég spurði hv. þm. Illuga Gunnarsson, að vísu í lok andsvars þannig að ég ætla ekki að kenna honum um að hafa ekki svarað því: Menn sem telja þetta vera þannig að hægt sé að segja já, nei, já, nei, já, nei, eða jú víst, nei, fram og aftur á þinginu, hvert er álit þeirra á hinum mikilvægu og margumtöluðu mannréttindum þess sem nú er sakborningur eða þeirra sem það verða í framtíðinni? Því hefur ekki verið svarað þrátt fyrir allt mannréttindatalið um þetta efni.

Ég á nokkrar mínútur eftir af þessum parti ræðunnar. Mig langar að segja að ég held að í raun hafi staðið á bak við þetta mál ekki þær ástæður sem tilnefndar eru í þingsályktunartillögunni eða hér í ræðunum, hvorki Icesave né þingmennirnir sem skiptu um skoðun þó þeir kunni að eiga einhvern hlut að þessu sem við vitum ekki enn þá um, heldur sé það kannski þetta hér: Í fyrsta lagi, Sjálfstæðisflokkinn vantaði í haust mál, einhverja samþjöppun eftir erfiðan landsfund þar sem formaðurinn var kosinn með 55% atkvæða ef ég man rétt, gegn áskoranda sem fékk verulegt fylgi (Gripið fram í: Ekki lýðræði?) Jú, það er lýðræði, en flokkar eru kannski nokkuð aumir þegar þeir hafa lent í slíku lýðræði. Ágreiningur er innan Sjálfstæðisflokksins og kom í ljós á landsfundinum í mörgum mikilvægustu málunum. Flokksmenn eru ekki sammála um skuldir heimilanna, í sjávarútvegsmálum eru í raun margar skoðanir uppi í Sjálfstæðisflokknum. Síðan er auðvitað klofningur í flokknum um afstöðuna til Evrópusambandsins, klofningur sem líka kemur fram á þinginu og væri augljósari ef Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki að strita við að reyna að halda andlitinu í því efni.

Það var líka ástæða til að búa til mál sem gerði það kleift með einhverjum hætti, og ég verð að viðurkenna að var mjög snjallt herbragð hjá hv. þm. Bjarna Benediktssyni og aðstoðarmönnum hans, að gera atlögu að ríkisstjórn og stjórnarflokkum á einmitt sama tíma og árangur var sýnilega að nást, Sjálfstæðisflokknum til mikillar skelfingar, í meginverkefni stjórnarinnar, þ.e. endurreisn efnahagslífsins og lífskjaranna á Íslandi, árangur sem gæti átt eftir að hjálpa henni við önnur verk, við þau verkefni sem við stöndum núna frammi fyrir og eru okkur mjög mikilvæg og öllum landsmönnum, við skuldavanda heimilanna, við fiskveiðistjórn og endurskoðun á henni og nýja mannréttindatíma og jafnaðartíma í sjávarútvegsmálum, við rammaáætlun, þannig að ég nefni nokkur dæmi. Það var auðvitað snjallt að geta sett fram tillögu sem fæli þetta líka í sér ásamt því að þjappa Sjálfstæðisflokknum að baki sér.

Auðvitað voru einnig með í þessum pakka tilfinningar, eðlilegar og skiljanlegar, gagnvart Geir H. Haarde, hinum gamla foringja, líka þau loforð og fyrirheit sem gefin voru á fundinum í Laugardalshöll með Hollywood-brag. Þar flutti hv. þm. Bjarni Benediktsson margra vasaklúta ræðu og eitthvert framhald varð auðvitað að vera af henni. Það er hins vegar spurning hvaða gagn persónunni Geir H. Haarde þetta mál gerir og umræðan hér á þinginu, að ég tali nú ekki um ef yrði af afturkölluninni, ef málið yrði fellt niður á þessu stigi rétt fyrir síðasta áfangann í málinu sem á að hefjast 5. mars, eftir nokkra daga, og það héngi yfir Geiri Hilmar Haarde alla ævina að hann hefði verið með einhverjum hætti skorinn niður úr snörunni, hann hefði verið látinn sleppa, að það ríkti vafi um stöðu hans gagnvart þeirri ákæru sem hann varð fyrir.

Ég, forseti, mundi ekki vilja verða fyrir því óláni ef búið væri að setja mig fyrir dóm að ég fengi það frá félögum mínum, þingmönnum, sjálfstæðismönnum að miklum hluta — ég held að það hafi verið einir átta ráðherrar sem ég hafði sem forsætisráðherra í stjórninni og um 20 þingmenn sem studdu stjórnarmeirihluta minn — að vera losaður við þá ábyrgð að ganga fyrir dóminn og verja mitt mál og koma út úr því annaðhvort sýkn saka eða með þá sök sem ég ætti skilið og hefði svarað til hennar á þann hátt sem borgarar í réttarríki og lýðræðisríki eiga að gera. Ég tel að þetta sé ekki greiði við Geir H. Haarde, heldur stjórnist þetta miklu frekar af hráum flokkshagsmunum Sjálfstæðisflokksins.

Þá má einnig nefna að málið er óþægilegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn og reyndar kannski fleiri. Það er þessi mikli vitnalisti. Það er ekkert gaman fyrir Sjálfstæðisflokkinn að eiga von á því að horfa á Árna Mathiesen, Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóra og innvígðan sjálfstæðismann, hann á að kalla sem vitni, Davíð Oddsson, Tryggva Þór Herbertsson, efnahagsráðgjafa stjórnarinnar, Styrmi Gunnarsson. Svo er það athyglin sem málið gæti beint að ferli Sjálfstæðisflokksins fyrir hrun og að hruninu sjálfu. Síðan eru það, af því að menn hafa jesúsað sig yfir því hér í ræðustól, þau gögn sem safnað hefur verið saman og saksóknari hefur komið sér upp í málinu. En ef þessi tillaga hér er samþykkt kemur hinn nýi partur af þeim gögnum fyrst í ljós árið 2042, sá partur sem telst persónulegur kemur fyrst í ljós árið 2092 þegar flest er dautt af persónum og leikendum í þessu máli og ég er örugglega dauður bæði þessi ár, (Gripið fram í.) líka Össur Skarphéðinsson sem að vísu lifir nokkuð lengur en ég af því hann er hraustari og meiri á velli (Utanrrh.: Lífsglaðari.) og hættur að drekka ákavíti eins mikið og hann gerði í gamla daga. En Bjarni Benediktsson sjálfur er orðinn 72 ára og býr í villunni sinni í Glæsibæ og kominn í var af hinum helga steini með ágæt eftirlaun eins og fleiri í þessum sal.

Gögnin eru ekkert léttvægt aukaatriði eins og Bjarni Benediktsson sagði, þó það sé að sjálfsögðu rétt að fyrst á að hugsa um málið sjálft og sakborninginn. Það sýnir auðvitað fáránleikann við þessa tillögu að hv. þm. Bjarna Benediktssyni og félögum hans í Sjálfstæðisflokknum skyldu ekki hafa komið til hugar að gögnin væru hér undir, vegna þess að það eru þau, og að þeir skyldu þá ekki hafa gert grein fyrir því í þingsályktunartillögunni eða flutt um það sérstakt frumvarp, því það er það sem þarf til að gögnin verði opinber eða hluti þeirra. Það sýnir best að þessi tillaga er sett fram í skyndingu, safnað til hennar rökum og hún sett saman af þeim ástæðum að um flokkshagsmuni Sjálfstæðisflokksins er að ræða, en ekki tillit til landsmanna, til laganna og sennilega allra síst til Geirs Hilmars Haardes sem á þó að vera miðlægur í þessari (Forseti hringir.) vinnu.