140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[21:46]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil fyrst segja að ég er afskaplega mikið sammála þeirri ræðu sem var flutt á undan minni af hv. þm. Merði Árnasyni. Svo kjarnyrt var hún að ég hefði helst viljað fara með hana orðrétt aftur því að ég tel að þar hafi margt viturlegt verið sagt sem þetta mál varðar. Það kann þess vegna að vera að margt af því sem ég hef um þetta mál að segja hafi þegar komið fram, bæði í ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar og kannski fleiri sem talað hafa fyrr í þessari umræðu í dag.

Ég ætla að byrja á því að tala um form málsins, þ.e. spurninguna um það hvort Alþingi er bært til að taka þetta mál fyrir til efnislegrar meðferðar eins og hér er lagt til. Nú hefur það verið sagt í þessari umræðu, og kemur fram í áliti meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, að með því að frávísunartillagan sem lögð var fram við fyrri umræðu um málið var felld og ákveðið að taka málið til efnislegrar meðferðar í þinginu hafi Alþingi í raun talað hvað það snertir og sagt: Já, þetta mál er bært til þess og Alþingi hefur heimild til að taka málið upp á nýjan leik.

Ég tel óhjákvæmilegt að segja nokkur orð um þetta. Ég gerði það við fyrri umræðu málsins og lýsti þar afstöðu minni og skoðunum hvað það snertir. Ég hef ekki skipt um skoðun í því efni, ekki eftir atkvæðagreiðsluna við fyrri umræðu og heldur ekki eftir að hafa lesið álit meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Ég virði að sjálfsögðu þau sjónarmið sem þar eru sett fram og þá niðurstöðu, eðlilega, en ég er ekki sammála þeim.

Ég verð að segja eins og er að ég tel að menn fari býsna léttúðlega með hin fræðilegu og lagalegu rök og sjónarmið sem liggja á bak við setningu landsdómslaganna og er ítarlega gerð grein fyrir í séráliti 1. minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, en hann skipar hv. þm. Magnús Norðdahl. Ég er í grunninn algerlega sammála þeim sjónarmiðum og þeirri reifun sem þar er sett fram.

Það hefur verið viðtekin skoðun stjórnskipunarfræðinga í raun og veru alla 20. öldina, alveg frá því að landsdómslögin voru sett fyrst í árdaga 20. aldar og aftur þegar ný landsdómslög voru sett 1963, að frumkvæði þáverandi dómsmálaráðherra, Bjarna Benediktssonar, síðar formanns Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, og samið var af prófessor Ólafi Jóhannessyni, sem þá var þingmaður í stjórnarandstöðu og jafnframt prófessor í stjórnskipunarrétti og síðar forsætisráðherra og dómsmálaráðherra. Þau sjónarmið endurspeglast í fræðiritum Gunnars G. Schrams, síðar prófessors í stjórnskipunarrétti, og meðal annars í fræðigrein sem Andri Árnason hæstaréttarlögmaður skrifar árið 2009, að ég hygg, en raunar eftir að breyting var gerð á landsdómslögunum í ársbyrjun 2009 þar sem breytt er tilvísun í lög um meðferð sakamála sem ég er sammála hv. þm. Magnúsi Norðdahl um að hefur ekkert gildi í þessu samhengi vegna þess að þau tóku ekki á þeim álitamálum sem menn eru þar að halda fram. Ég verð að segja að mér finnst það býsna hraustlega gert, jafnvel hjá mönnum sem eru vel að sér í stjórnskipunarrétti og lögum, nokkrum fræðimönnum á því sviði sem nú hafa komið fram inn í þetta mál, þetta sérstaka mál, landsdómsmálið sem þegar er hafið, og inn í þá þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir, að setja fram þau sjónarmið í blaðagreinum, og jafnvel í munnlegu áliti fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, að þeir séu þeirrar skoðunar að þessi klassíski, hefðbundni, viðtekni skilningur eigi ekki við.

Ég hefði skilið það ef menn hefðu legið í þessu máli á fræðilegum grunni, akademískum grunni, og komist að þessari niðurstöðu, fleiri en einn og fleiri en tveir, að þetta ætti við. Mér finnst það nokkuð hraustlega gert að koma inn í þetta mál með þeim hætti sem gert hefur verið og lýsa í raun og veru ómerk þau sjónarmið sem hér hafa verið viðtekin í þessum efnum um áratugaskeið. Ég er ekki að halda því fram að þeir menn sem þau settu fram hafi verið óskeikulir, alls ekki. En þeir undirbyggja það í fræðiritum sínum, í lögskýringargögnum, í greinargerð með landsdómsfrumvarpinu, þar sem beinlínis er sagt að eftir að Alþingi hafi kosið saksóknara og saksóknarnefnd honum til fulltingis sé málið úr höndum Alþingis — enda hvernig má annað vera, frú forseti?

Jú, það sem gerist ef þessi skilningur er ekki ofan á er nákvæmlega það sem hv. þm. Illugi Gunnarsson var í raun að segja í sínu máli fyrr í kvöld, að það eigi að láta reyna á breytta afstöðu Alþingis í málum af þessum toga frá einum tíma til annars. Í raun væri hægt að segja að um leið og nýr þingmaður kemur til starfa á þinginu, fyrir annan sem hættir eða fer í leyfi, þyrfti að láta á það reyna hvort afstaða ákæruvaldsins í þingsölum sé óbreytt og hin sama. Slíkur hringlandaháttur gengur einfaldlega ekki. Þessir vísu menn, Bjarni Benediktsson, Ólafur Jóhannesson — og ég undrast satt að segja að fulltrúar og forustumenn þeirra tveggja flokka sem þeir voru í forustu fyrir skuli í dag hafa að engu sjónarmið þeirra — gerðu sér auðvitað grein fyrir því að það var ekki hægt að búa þannig um hnútana að Alþingi gæti sýknt og heilagt verið að taka mál af þessum toga upp bara eftir því hvernig vindar blésu. Þess vegna er það meira að segja tekið fram í þeirra ritum að það eigi ekki bara við um það þing sem hefur einu sinni gefið út ákæru, að það geti ekki komið að málinu aftur, heldur segja þeir einnig að það eigi líka við jafnvel þó að þing hafi verið rofið, boðað til kosninga og nýtt þing komið saman — þá geti það þing heldur ekki vasast í þeirri ákæru. Ég er, frú forseti, enn þeirrar skoðunar að Alþingi geti ekki tekið þessa ákvörðun.

Ég átta mig á því að önnur sjónarmið eru uppi í þessu máli, bæði hjá þeim sem hafa látið þau sjónarmið í ljós gagnvart stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og einnig í þingsal. Ég er sammála séráliti Magnúsar Norðdahls hvað þessi atriði varðar en ég styð einnig niðurstöðu meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þar sem hún leggur til sem aðalniðurstöðu að málinu verði vísað frá en til vara að tillagan verði felld. Þá kem ég aðeins að því að meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar kemst að þeirri niðurstöðu að vísa beri málinu frá núna á öðrum forsendum en greidd voru atkvæði um 20. janúar. Þá var frávísunartillagan felld vegna þess að margir sögðu hér: Við viljum að þetta mál fái efnislega umfjöllun.

Nú hefur það fengið þá efnislegu umfjöllun á vettvangi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í hálfan annan mánuð, gaumgæfilega skoðun á vettvangi þeirrar nefndar, þar sem fram hafa komið fjölmargir gestir og sjónarmið þar hafa verið reifuð og málið ítarlega rætt. Niðurstaða meiri hlutans er sem sagt sú að ekkert hafi efnislega komið fram sem gefur tilefni til að taka upp þessa ákvörðun. Ég er þeirrar skoðunar að telji menn að Alþingi geti tekið nýja ákvörðun í málinu verði Alþingi alla vega að hafa til þess málefnalegar forsendur, og þær ríkar, til að taka slíka ákvörðun. Það sé alla vega lágmark að það séu ríkar málsástæður til að taka málið upp og meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar kemst að þeirri niðurstöðu að slíkar ástæður séu ekki fyrir hendi. Nefndin hefur rætt þetta mál við saksóknara og varasaksóknara sem Alþingi kaus af sinni hálfu til að fara með þetta mál og þar kemur fram að engu slíku er til að dreifa.

Bent hefur verið á að landsdómur hefur sjálfur fengið nú þegar til úrlausnar spurninguna um hvort vísa ætti frá ákærunum sem Alþingi ákvað að gefa út og landsdómur hefur ekki fallist á það. Hann hefur ákveðið að vísa frá tveimur ákæruliðum af sex en hinir standi og séu greinilega fullburða til að standa undir ákærunni. Ekki er hægt að skilja niðurstöðu landsdóms öðruvísi. Þess þá heldur að Alþingi komi hingað og fari inn í málið og ákveði að fella niður saksókn. Það er mjög sérkennilegt svo ekki sé meira sagt.

Svo vekur auðvitað athygli nefndarálit 2. minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar en undir það rita hv. þm. Birgir Ármannsson og Ólöf Nordal. Þegar í upphafi í nefndaráliti þeirra er sagt að fram séu komin margvísleg málefnaleg sjónarmið sem styðji niðurstöðuna um að falla beri frá ákæru, og í niðurstöðuorðunum er þetta ítrekað. Þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

„… 2. minni hluti er í ljósi þessa þeirrar skoðunar að margar málefnalegar ástæður séu fyrir því að afturkalla ákæruna.“

En hverjar eru þessar mörgu málefnalegu ástæður? Er þær að finna í umræddu nefndaráliti? Nei, þær er ekki að finna þar. Er þær að finna í máli þeirra þingmanna sem styðja þetta nefndarálit í dag? Ég hef ekki orðið var við það.

Í nefndarálitinu eru tilgreind nokkur atriði sérstaklega. Það er í fyrsta lagi að ákæran, tillaga meiri hluta þingmannanefndarinnar svokölluðu í september 2010, hafi gert ráð fyrir því að fjórir fyrrverandi ráðherrar yrðu ákærðir en þeir hafi orðið aðeins einn. Þetta segja þau að séu margar málefnalegar ástæður. Staðreyndin er sú að tillaga meiri hluta þingmannanefndarinnar var í fjórum liðum. Hún var meira að segja þannig að það voru ekki allir ákæruliðirnir eins gagnvart öllum ráðherrunum sem í hlut áttu. Átti þá að gefa út eina hópákæru á fjóra ráðherra? Nei, gerð var tillaga um fjórar sjálfstæðar ákærur og atkvæði voru greidd um þær hverja fyrir sig. Síðan, eins og hér hefur margítrekað verið bent á, í samræmi við þingsköp, var tillagan þannig breytt borin upp í þingsal og samþykkt. Síðan eru liðnir 17 mánuðir. Hvað er nýtt í þessu? Hvað er nýtt við þetta mál? Ekki neitt. Þetta hefur legið fyrir lengi. Ef þetta er ein af meginástæðunum af hverju kom þessi tillaga þá ekki strax í kjölfarið eða fljótlega?

Í öðru lagi er sagt að frá september 2010 hafi komið fram mun meiri upplýsingar um hina alþjóðlegu fjármálakreppu sem hófst á sumar- og haustmánuðum 2008. Það kann vel að vera að meiri upplýsingar liggi fyrir núna en þá. En í grundvallaratriðum vissu menn nákvæmlega hver staðan var á þessum tíma, í grundvallaratriðum. Sé svo að einhver viðbótargögn séu komin fram hvað þetta varðar sérstaklega verður landsdómur að taka afstöðu til þess og meta það í meðferð málsins.

Í þriðja lagi er talað um að efnislegt inntak sakamálsins hafi breyst verulega þegar landsdómur vísaði frá tveimur fyrstu liðum ákærunnar. Um þetta er að sjálfsögðu deilt og dómurinn hefur þegar ákveðið sjálfur að fjórir ákæruliðir skuli standa eftir og það hefur ekkert komið fram sem breytir þeirri niðurstöðu. Enda hefur dómurinn talað í því máli. Þegar talað er í áliti 2. minni hluta um margar málefnalegar ástæður þá stendur ekki steinn yfir steini í þeirri frásögn sem þar er að lesa, ekki steinn yfir steini.

Í niðurstöðu þessa álits er síðan sagt í einni setningu:

„Á hinn bóginn hefur komið fram að ýmsir þeirra sem studdu ákærutillöguna á sínum tíma telja forsendur breyttar og meta málið með öðrum hætti nú.“ — Að þeir hafi sem sagt skipt um skoðun.

Eins og kom glögglega fram í máli hv. þm. Marðar Árnasonar þá er þetta ekki ein af málsástæðunum í þingsályktunartillögunni sjálfri. Þetta er ekki tiltekið sem sérstök rök fyrir málinu þó að flutningsmaður málsins, hv. þm. Bjarni Benediktsson, geri það núna í fjölmiðlum að einu meginatriði, lykilatriði, málsins. Það kann auðvitað að vera að einhver hafi skipt um skoðun, jafnvel í báðar áttir. Það hefur orðið breyting á samsetningu Alþingis frá því í september 2010, einhverjir þingmenn hafa hætt, aðrir hafa komið inn. Og eigum við þá að endurtaka atkvæðagreiðsluna í hvert skipti sem einhver breyting verður á samsetningu Alþingis eða ef einhver þingmaður lýsir því yfir að hann hafi núna aðra skoðun í málinu? Það sjá allir hvaða vitleysa væri í gangi með því. Það gengur ekki.

Ég tel, frú forseti, að engar efnislegar ástæður séu til þess að taka þetta mál upp með þeim hætti sem hér er lagt til. Í fyrsta lagi ítreka ég að ég er þeirrar skoðunar að Alþingi hafi ekki umboð til að taka þessa ákvörðun. Ég átta mig á því að aðrir eru annarrar skoðunar og tefla fram rökum sínum fyrir því. Gott og vel. Hvaða skilyrði eru þá til þess að taka slíka ákvörðun? Má það bara vera vegna þess að mönnum dettur það í hug? Af hverju er það gert á þessum tímapunkti? Af hverju var það þá ekki gert miklu fyrr? Þegar menn tefla fram þeim rökum nú allt í einu sem lykilrökum að menn hafi skipt um skoðun hljóta menn að spyrja sig: Hvenær varð það ljóst að einhverjir gætu hafa skipt um skoðun og þess vegna væri tilefni til að taka þetta mál upp aftur? Kann að vera að þessi þingsályktunartillaga hafi verið í undirbúningi lengi áður en hún var lögð fram? Að mönnum hafi verið ljóst að einhverjir þingmenn hafi skipt um skoðun jafnvel í haust? Er það vitað? (Gripið fram í: Aldrei að vita.) — Aldrei að vita nei, það er nefnilega aldrei að vita.

Menn hljóta að spyrja: Af hverju kemur þessi tillaga fram núna? Af hverju var krafan gerð um það fyrir jól að málið yrði tekið á dagskrá og afgreitt nánast umræðulaust? Af hverju var það?

Ég er sömu skoðunar og hv. þm. Mörður Árnason, ég tel að hér séu miklu djúpstæðari pólitískar ástæður að baki. Pólitískar ástæður sem má rekja til innanmeina í Sjálfstæðisflokknum sem hann er að glíma við um þessar mundir, meðal annars í kjölfar formannskjörs, en líka að Sjálfstæðisflokkurinn sá færi á ríkisstjórninni. Og þó að þetta sé ekki málefni ríkisstjórnarinnar og hafi ekki verið borið fram af henni, hvorki hin fyrsta tillaga um ákærurnar og enn síður þetta mál, þá er það áreiðanlega mat Sjálfstæðisflokksins að hann geti veitt ríkisstjórninni einhverja áverka með tillögu af þessum toga. Ég vonast að sjálfsögðu til þess að hún standi það af sér, þessi ríkisstjórn, en það reynir á marga í því efni.

Sjálfstæðisflokkurinn er líka áhyggjufullur vegna þess að núverandi ríkisstjórn hefur tekist að snúa við þeirri óheillaþróun sem Sjálfstæðisflokkurinn kom okkur í eftir 18 ára stjórnarsetu. Það er farið að rofa til í íslenskum þjóðarbúskap, í efnahagsmálum þjóðarinnar. Það vill hann að sjálfsögðu ekki að verði lýðum ljóst vegna þess að ríkisstjórnin gæti við þær aðstæður sannfært þjóðina um að ekki eigi að hleypa Sjálfstæðisflokknum að á nýjan leik við landstjórnina. Þetta eru að mínu mati þær djúpstæðu ástæður sem liggja á bak við það að Sjálfstæðisflokkurinn kýs að koma með þetta mál inn í þingið á þessum tímapunkti. En burt séð frá því öllu þá er ég enn þeirrar skoðunar (Forseti hringir.) að engar forsendur hafi breyst í þessu máli, frú forseti, sem réttlæti það að við tökum ákvörðun um að falla frá ákæru sem Alþingi hefur þegar tekið ákvörðun um og komist að niðurstöðu um að skuli ganga fram.