140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[22:06]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er að mörgu leyti sammála hv. þingmanni um að mér finnst að Sjálfstæðisflokknum hafi tekist ákaflega óhönduglega með þetta mál. Ég skildi ekki af hverju þeir biðu með að leggja fram tillöguna þangað til einn dagur var eftir af þingi fyrir jól. Ég skil ekkert í því miðað við þær umræður sem urðu á landsfundi Sjálfstæðisflokksins sem leiddu til þess að ég taldi að þeir mundu leggja fram svona tillögu. Mér fannst það eiginlega liggja í hlutarins eðli eftir niðurstöðu fundarins. En ég læt liggja á milli hluta af hverju það var ekki gert fyrr.

Hins vegar tel ég efnislegar ástæður fyrir því að þingið skoði þetta upp á nýtt. Hin fyrri, sem ég tel fyllilega málefnalega ástæðu, er sú að þingmenn í flokki hv. þingmanns og ráðherra lýstu yfir breytingu á afstöðu. Það kom fram í umræðunum. Það finnst mér réttlæta að menn skoði þetta mál.

Í öðru lagi vísa ég til þess að það hefur komið fram að frá því að við ræddum þetta mál hið fyrra sinni hefur dómurinn vísað frá tveimur ákærum. Á þeim tíma voru þessar ákærur taldar þær veigamestu. Margir þingmenn ræddu þær með þeim hætti. Ég sjálfur taldi að sérstaklega önnur tveggja tillagna lyti að sérstöku yfirstjórnarhlutverki forsætisráðherra sem yfirmanns ríkisstjórnarinnar. Þessu er svipt burtu. Þá tel ég fyllilega réttlætanlegt að Alþingi Íslendinga kanni aftur hvort það séu minni líkur en meiri á því að viðkomandi verði fundinn sekur (Forseti hringir.) og þegar búið er að svipta burt tveimur svona sterkum ákæruliðum er ekki erfitt að komast að þeirri niðurstöðu að svo kunni að vera.