140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[22:10]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er í sjálfu sér ekki erfitt að komast að þeirri niðurstöðu að hv. þingmaður kunni að hafa rétt fyrir sér um það sem varðar mannabreytingar í flokkum. (Gripið fram í.) Hitt liggur algerlega eftir að það hafa orðið breytingar á ákæruliðunum og það kemur Alþingi sem ákæruvaldi ekkert við hvort saksóknara finnst að þeir liðir sem voru felldir út hafi verið til uppfyllingar eða ekki. Í umræðunni á Alþingi hið fyrra sinni töldu þingmenn það ekki vera. Þá kom fram að sérstaklega annar ákæruliðurinn var talinn sá veigamesti.

Það er auðvelt að komast að þeirri niðurstöðu að að minnsta kosti eftir þá breytingu miðað við það sem áður var séu minni líkur á því að viðkomandi sakborningur verði sakfelldur en fyrir þá breytingu. Þá er auðvelt að rökstyðja að það sé að minnsta kosti einnar messu virði fyrir Alþingi að velta fyrir sér og rökræða hvort það kunni þegar á heildina er litið að vera þegar allt er talið (Forseti hringir.) minni líkur en meiri á sektinni. Það er það, og það eitt, sem við sem fjölskipað ákæruvald (Forseti hringir.) eigum að velta fyrir okkur og láta ráða niðurstöðu okkar.