140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[22:13]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að leyfa mér að mótmæla því sem fram kom í ræðu hv. þingmanns, að tillaga Bjarna Benediktssonar um að afturkalla ákæru á hendur Geir H. Haarde hafi verið sett fram til að koma höggi á ríkisstjórnina. Hún sér um það sjálf.

Þetta mál er miklu stærra en svo að það snerti ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna. Það er eiginlega hálfósmekklegt, virðulegur forseti, að telja að ríkisstjórnin sé svo mikils virði að þess vegna kalli menn til baka ákæru á hendur fyrrum forsætisráðherra.

Frú forseti. Mér eiginlega ofbýður og er hins vegar margt gott (Gripið fram í.) í ágætum þingmanni Árna Þór Sigurðssyni. En að halda að í hugum okkar sjálfstæðismanna sé ríkisstjórnin svo stór að við komum með þetta mál til að koma höggi á hana er eiginlega svo fyrir neðan virðingu hv. þingmanns að nefna og ágreiningur innan Sjálfstæðisflokksins er bara okkar mál á nákvæmlega sama hátt og ágreiningur innan Vinstri grænna er vonandi þeirra mál. Þetta mál, virðulegur forseti, er miklu stærra en svo að hér hafi verið reynt að koma höggi á ríkisstjórn Íslands. Af því að hv. þingmaður nefndi það svo skemmtilega að Sjálfstæðisflokkurinn vildi koma í veg fyrir að lýðnum yrði ljóst að farið væri að rofa til segi ég að fólkið í landinu hlýtur að finna það á sjálfu sér hvort farið er að rofa til í efnahagsmálum.