140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[22:15]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Allar tölur og mælingar sem við getum stuðst við sýna nú reyndar að farið er að rofa til og ég vænti þess að (Gripið fram í.) það muni skýrast enn betur eftir því sem mánuðirnir líða.

Varðandi hitt, að tillagan sé sett fram til að koma höggi á ríkisstjórnina, nefndi ég að ég teldi að það væru flokkslegar ástæður fyrir tillögunni og nefndi nokkuð mörg atriði því til sönnunar. Eitt þeirra var þetta, að koma höggi á ríkisstjórnina, en það var ekki eina atriðið sem ég nefndi í því sambandi.

Þessi tillaga er flokksleg tillaga frá Sjálfstæðisflokknum og borin fram af formanni Sjálfstæðisflokksins í kjölfar landsfundar hans í haust. Að því leyti er ég sammála hæstv. utanríkisráðherra að búast hefði mátt við því eftir landsfundinn að tillaga af þessum toga kæmi fram. Það kom á óvart að hún skyldi ekki koma þá strax fram heldur var beðið með að leggja hana fram þar til einn dagur var eftir af þinginu. Ég er þeirrar skoðunar að tillagan sé í raun lögð fram vegna hagsmuna Sjálfstæðisflokksins en klædd í annan búning og það er það sem við höfum verið að takast á um.