140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[22:19]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi atriðið um möguleikana á að gefa út ákæru á nýjan leik á ég ekki sæti í þessari nefnd en ég les það sem stendur í nefndaráliti meiri hlutans og þar kemur einmitt fram að innan þriggja eða jafnvel sex mánaða eftir aðstæðum sé hægt að gefa út ákæru á nýjan leik. Það er niðurstaðan að þessu máli, að jafnvel þótt Alþingi mundi ákveða að falla frá ákæru er málinu ekki lokið. Einstaklingurinn sem málið beinist gegn nú yrði áfram í óvissu hvað þetta varðar.

Ég tel að réttindum sakbornings sé vel fyrir komið með þeirri aðferð sem beitt er í málum af þessum toga þó að menn geti að sjálfsögðu haft þá skoðun að ef til vill ættu mál gagnvart ráðherrum að fara inn í almenna réttarkerfið, en þannig er bara ekki um hnútana búið í dag og við förum að sjálfsögðu að lögum.

Ég er þeirrar skoðunar að Geir Haarde mundi búa við meira óöryggi, ef svo má segja, ef Alþingi kæmist að þeirri niðurstöðu að afturkalla ákæruna. Svo má kannski bæta því við að ég tel að þeir dómendur sem fara með málið séu vel til þess færir. (Gripið fram í: … ekki verið að hafna …) Hér eru dómarar úr Hæstarétti og aðrir sérfræðingar úr lagadeild Háskólans Íslands, dómstjórinn í Reykjavík og fleiri ásamt kjörnum fulltrúum frá Alþingi. Ég tel að dómurinn sé vel skipaður einmitt til þess að gæta að réttlátri málsmeðferð.