140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[22:42]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður kann öðrum þingmönnum betur að skera til hjartans og nýrnanna í Sjálfstæðisflokknum og það sem út vellur, þá aðgerð kann hann betur að skilgreina en flestir aðrir. Ég er samt býsna góður í því líka og er ekkert ósammála þeirri niðurstöðu sem hann kemst að.

Það breytir ekki hinu að ég, hann og aðrir þingmenn sem handhafar 1/63 af fjölskipuðu ákæruvaldi Alþingis þurfum að taka afstöðu til lykilspurninga, og einni spurningu varpaði hv. þingmaður fram. Hann svaraði henni náttúrlega fyrir hönd sjálfs sín en ég vil gjarnan fá að svara henni fyrir hönd þeirra sem nokkuð hefur verið sótt að af félögum sínum í stjórnarflokknum fyrir þá afstöðu sem við höfum tekið.

Spurning þingmannsins var þessi: Hefur eitthvað komið fram sem dregur úr líkum á sakfellingu? Ég tel að þegar einum þriðja af ákæruatriðum er fleygt burt og þar að auki þegar í þeim pakka er eitt ákæruatriði sem í umræðunni og almennt í umfjöllun á fyrri stigum máls var talið kannski yfirgripsmesta brotið, sé það tilefni fyrir Alþingi til að skoða hvort sú breyting hafi leitt til þess að upp sé komin sú staða að líkur á sekt séu minni en áður og þá hugsanlega hvort þær séu minni en meiri. Þetta eru prinsippspurningar sem menn verða að taka afstöðu til án tillits til þess hversu þægilegar þær kunna að vera fyrir meintan sakborning eða fyrir þann sem svarar, og þær eru ekkert þægilegar fyrir þá sem þurfa að svara. Það er ekkert þægilegt fyrir menn að standa undir spjótalögum úr eigin flokkum og hótunum þegar menn reyna að fara eftir prinsippum.

Þetta er mitt svar við spurningunni: Ég tel að það hafi komið fram (Forseti hringir.) nægilegt tilefni til að skoða málið vegna þessa. Svo getum við verið ósammála um það hver niðurstaðan á þeirri skoðun er.