140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[23:10]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Nú hefur þetta mál verið til meðferðar í nefnd töluvert lengri tíma en málið var upphaflega þegar tekin var ákvörðun um að ákæra Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Það er svolítið sérkennilegt að menn hafi talið sig þurfa að ræða það enn ítarlegar nú en þegar ákvörðunin var tekin og raunar undarlegt á hvaða hátt umræðan hefur þróast, hún hefur þróast dálítið mikið út í að reyna að gera upp innan þingsins hver niðurstaðan í dómsmálinu ætti að vera. Það taldi ég að menn væru í raun komnir langt með að meta, hver fyrir sig á sínum tíma, en svo kom í ljós að eftir því sem upplýsingar höfðu bæst við og menn nefndu fleiri ástæður, til að mynda eðlisbreytingu málsins, höfðu nokkrir þeirra sem studdu ákæru á sínum tíma skipt um skoðun. Í raun er það það eina sem málið snýst um, þ.e. hvort meiri hluti er fyrir ákæru eða ekki. Þess vegna er svolítið undarlegt að heyra menn lýsa því yfir að ekki sé einu sinni eðlilegt að greiða atkvæði um þetta mál vegna þess að hafi ekki orðið nein eðlisbreyting á málinu, ekkert hafi gerst sem réttlæti nýja niðurstöðu, með öðrum orðum þeir sem tala þannig ætla að taka ákvörðun fyrir alla hina, meira að segja í máli þar sem áhersla hefur verið lögð á að hver og einn verði að gera þetta upp við sjálfan sig.

Ef ekki er meiri hluti fyrir málinu, ef einhverjir hafa skipt um skoðun sem töldu áður að það ætti að ákæra og eru ekki lengur þeirrar skoðunar, nægir það eitt og sér sem ástæða til að taka málið fyrir, og ekki bara ástæða heldur í rauninni gerir okkur nauðsynlegt að taka málið fyrir aftur. Alþingi fer, eins og svo oft hefur komið fram við þessa umræðu, með ákæruvald. Sá sem fer með ákæruvald í máli getur iðulega dregið málsókn til baka, það hefur verið margstaðfest í umræðunni. Ef fyrir liggur þá að lýðræðislegur meiri hluti sé fyrir því að ákæra ekki hlýtur Alþingi samkvæmt því að eiga að draga málið til baka. Það er ekki sérlega lýðræðislegt að láta umræðuna alla snúast um einhver önnur atriði sem virðast fyrst og fremst vera réttlæting fyrir því hvers vegna tilteknir þingmenn telji sig geta haft vit fyrir öllum hinum.

Það er bara mál hvers og eins hvernig hann greiðir atkvæði í þessu máli. Ef fleiri eru á móti því að Geir H. Haarde sé fyrir landsdómi en eru því hlynntir á ekki að halda málarekstrinum áfram. Svo einfalt er það.

Við höfum reyndar haft það gagn af umræðunni allri að sjá að fyrir sumum sem styðja málsókn, og ég er alls ekki að fullyrða að það eigi við um alla sem styðja málsókn, er þetta fyrst og fremst spurning um pólitík. Við höfum meira að segja séð það á umræðum og yfirlýsingum frá ríkisstjórnarflokkunum eða félögum þeirra flokka sem gengið hafa svo langt að frá Samfylkingarfélaginu í Reykjavík bárust hótanir um að þingmenn flokksins yrðu látnir gjalda þess fyrir næstu alþingiskosningar ef þeir greiddu ekki atkvæði í þessu máli í samræmi við vilja og kröfu þessa flokksfélags. Í máli þar sem hver og einn þingmaður átti að gera það upp við eigin samvisku, eftir að hafa lagt faglegt mat á gögn málsins, hvort rétt væri að ákæra eða ekki eru nú pólitísk flokksfélög farin að gefa út tilskipanir um hvernig þingmenn flokka þeirra eiga að greiða atkvæði. Það er enn eitt dæmið um í hvaða ógöngum málið er lent.

Svo er hvað eftir annað búið að gera breytingar á meginröksemdafærslunum fyrir því að ekki eigi að draga ákæruna til baka. Fyrst var því haldið fram að Alþingi hefði ekki vald til þess. Sumir fóru mikinn í að tala um að í því fælust afskipti af dómstólum, einkum þingmenn sem höfðu mjög hátt fyrir ekki svo löngu og kröfðust þess að Alþingi gripi inn í annað dómsmál þar sem Alþingi fór ekki með ákæruvaldið, sem er auðvitað grundvallarmunurinn á landsdómsmáli og öðrum málum. Þar hefur Alþingi eðli málsins samkvæmt alla möguleika á því að skipta um skoðun. Það kemur fram í áliti fjölmargra lögfræðinga sem skrifað hafa um málið og komið fyrir nefndina til að útskýra afstöðu sína, en í stað þess að hlusta á þá er vitnað í 50 ára gömul skrif um lögfræðileg málefni og landsdóm, skrifuð út frá lögum sem ekki eru lengur í gildi. Það hefur nú, heyrist mér, fengið hið sérstaka heiti „hin klassíska skoðun“. Því er haldið fram að við eigum að fara eftir þessari klassísku skoðun, ekki úreltu skoðun. Úrelt, segi ég vegna þess að þetta er skrifað út frá lögum sem eru breytt. Hin klassíska skoðun, 50 ára gamla skoðun, sem unnin er út frá lögum sem ekki eru lengur í gildi, á að vera ofar því sem er kallað skoðun ungu lögfræðinganna, sem eru væntanlega lögfræðingar sem enn eru á lífi, þeir fylgjast með málinu og meta það út frá fyrirliggjandi staðreyndum. Það eru ungu lögfræðingarnir sem (Utanrrh.: Þeir eru allir á áttræðisaldri.) — hæstv. utanríkisráðherra kallar fram í að þeir séu allir á áttræðisaldri, en þeir eru þó í aðstöðu til að meta það mál sem hér er til umræðu.

Allt tal um hina klassísku skoðun er svolítið sérstakt. Þó hef ég ekki heyrt neinn þeirra þingmanna sem tala fyrir því að halda þessum málarekstri áfram úr því að við megum ekki hlusta á núlifandi lögfræðinga vitna í biblíuna, en það hefði alveg mátt gera það, hugsanlega til að rökstyðja hluti á sama hátt og hin klassíska skoðun á einungis að leyfa okkur að taka eina afstöðu.

Fleira sérkennilegt hefur gerst og komið upp í umræðunni eftir að málið var aftur tekið til umræðu í þinginu. Bent hefur verið á að veigamiklum ákæruliðum hafi verið vísað frá en þá segja menn að vegna þess að ekki öllum atriðunum var vísað frá felist í því staðfesting á því að ákæran hafi verið rétt. Í því liggur náttúrlega grundvallarmisskilningur á því hvernig dómstólar starfa. Að máli sé ekki vísað frá er ekki staðfesting á réttmæti ákæru, það þýðir eingöngu að málið telst tækt, það sé hægt að taka það fyrir og dæma um það í framhaldinu. Það hefur ekkert með það að gera hvort ákært var fyrir eitthvað sem er rétt eða ekki.

Verið er að ákæra fyrrverandi forsætisráðherra fyrir að hafa ekki flutt ábyrgð á Icesave-reikningunum til Bretlands og með því er gefið í skyn að ábyrgð hafi legið hjá íslenska ríkinu, sem við flestir þingmenn hljótum að vera sammála um að var alls ekki tilfellið. Ábyrgðin var ekki hjá ríkinu heldur hjá einkabankanum Landsbankanum. En það er eins og staðið hafi til að færa ábyrgðina yfir á íslenska ríkið með Icesave-samningunum á sínum tíma og skella svo skuldinni á Geir Haarde. Það finnst mér helst til ósvífið, að núverandi ríkisstjórn skuli hafa gert tilraun til að færa það sem ekki voru skuldir íslenskra skattgreiðenda yfir á ríkið og ætla svo að skella skuldinni á fyrrverandi forsætisráðherra.

Mikið hefur líka verið rætt um skaðlega pólitíska stefnu. Ég get alveg tekið undir margt af því, ekki er ég mikill aðdáandi þessarar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, en um það snýst málið ekki. Menn hafa jafnvel farið aftur til Víetnamstríðsins og telja sig vera að gera upp sakirnar fyrir afstöðu Sjálfstæðisflokksins til Víetnamstríðsins með því að ákæra Geir Haarde nú. Því miður er það enn ein staðfestingin á pólitísku eðli þessa máls hvað varðar suma þeirra sem að því standa.

Svo hafa verið reynd brögð eins og að hræða almenning með því að einhver gögn kunni að tapast, einhver voðaleg leyndarmál fáist aldrei upplýst ef fallið verður frá þessu máli. Ef menn hafa fyrir því að kanna málið sjá þeir að þau gögn sem málið byggir á eru gögnin sem lágu til grundvallar skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og verða aðgengileg áfram, hvernig sem fer með þetta mál.

Einnig hefur verið snúið út úr mörgu sem meðal annars saksóknari Alþingis hefur sagt. Einn hv. þingmaður sagði áðan að saksóknari Alþingis hefði fullyrt að ekkert það hefði komið fram sem réttlætti afturköllun málsins. Það er ákveðinn útúrsnúningur, það er rétt að saksóknari Alþingis tók fram að ekki hefði orðið eðlisbreyting á málinu, en saksóknari Alþingis hefur hins vegar aldrei lagt mat á það hvort rétt hafi verið að ákæra. Saksóknari Alþingis tók einungis að sér verk sem honum var falið, sem er að reyna að ná fram dómi um sekt í málinu í samræmi við fyrirmæli meiri hluta Alþingis. Hins vegar hefur saksóknari Alþingis tekið af allan vafa um að valdið sé hjá Alþingi, vald til að hætta við málið ef svo ber undir og meira að segja var tekið fram að í því fælust ekki afskipti af dómstóli. Skömmu eftir að hæstv. forsætisráðherra snerist að einhverju leyti í þessu máli og vildi vísa því frá án þess að það yrði tekið til efnislegrar umræðu, og réttlætti það með því að verið væri að grípa inn í dómsmál, kom saksóknari Alþingis fram og benti á að það væri einfaldlega ekki rétt.

Það er reyndar svolítið sérkennilegt hvernig sumir þingmenn tala um saksóknara Alþingis. Annars vegar er gefið í skyn að þingið fái engu ráðið lengur, saksóknarinn ráði þessu öllu, en svo er í sömu ræðu lítið gert með að þessi sami saksóknari hefur fullyrt að það sé ekki rétt, að valdið sé hjá þinginu og að þetta sé ekki inngrip í dómsmál. Þá er sagt: Nei, lítum frekar til hinna klassísku lögskýringa.

Fallið hafa ýmis furðuleg ummæli og ég ætla ekkert að rekja það allt saman en ein þau undarlegustu og kostulegustu sem ég kemst eiginlega ekki hjá því að nefna voru þau sem komu fram seinni partinn í dag og eru þau að það sé óþolandi fyrir Geir Haarde að ákæra sé dregin til baka vegna þess að þá muni hann búa við þá óvissu í þrjá mánuði að það kunni að verða ákært aftur. Þá sé betra fyrir Geir Haarde að vera fyrir dómstólum en að búa við þá óvissu að verða hugsanlega kærður og þurfa að fara fyrir dómstóla.

Við höfum líka heyrt fullyrt, reyndar ekki jafnmikið nú og á fyrri stigum umræðunnar, að það sé gott fyrir Geir Haarde að fá tækifæri til að sanna sakleysi sitt. Það hlýtur þá að eiga við um fleiri og færi óneitanlega illa á því ef núverandi hæstv. forsætisráðherra og hæstv. efnahagsráðherra og fleiri stæðu að því að ákæra fyrrverandi forsætisráðherra og drifu svo í að afnema lög um landsdóm svo þau væru ekki undir sömu sök seld. Þegar við berum saman það sem Geir Haarde er ákærður fyrir og snýr meðal annars að Icesave og fundahöldum, skorti á samræðu og slíku, held ég að núverandi hæstv. forsætisráðherra og hæstv. efnahagsráðherra komi ekki sérlega vel út úr þeim samanburði. Ef þau ætla að kæra fyrrverandi forsætisráðherra fyrir slíka hluti og afnema svo landsdómslögin strax í framhaldinu færi ekki mjög vel á því.

Eins og ég nefndi strax í upphafi er þetta tiltölulega einfalt mál sem við stöndum frammi fyrir núna, það snýst bara um það að þegar hver og einn þingmaður hefur metið málið sjálfstætt, gert upp hug sinn, er annaðhvort vilji fyrir því að halda málinu áfram, og þá verður það bara gert, eða vilji Alþingis er ekki lengur til staðar, það er ekki lengur meirihlutavilji fyrir því að halda málinu áfram. Þá yrði auðvitað hið eina eðlilega að falla frá því.

Ein sérstæð rök sem komið hafa fram í dag vil ég þó nefna til viðbótar, þ.e. að það geti orðið og hafi að einhverju leyti orðið breytingar á því hvernig Alþingi er skipað. Það þýði að ekki sé hægt að taka málið fyrir aftur vegna þess að þingmenn sem sitja á þingi nú og gerðu ekki áður geti haft aðra skoðun en þeir þingmenn sem voru á þinginu þegar ákvörðunin var tekin á sínum tíma. Sú röksemdafærsla bítur auðvitað í skottið á sjálfri sér vegna þess að á sínum tíma voru til að mynda varamenn á þingi og þá er ekki hægt að segja að niðurstaða þess þings, eins og það var skipað, sé endilega réttari en niðurstaða þegar aðrir varamenn sitja á þingi eða engir varamenn. Við skulum ekki flækja málið óþarflega, sumir eru þeirrar skoðunar að hið eina rétta, lagalega séð, sé að ákæra fyrrverandi forsætisráðherra, Geir Haarde, sumir eru þeirrar skoðunar að ákæra hefði átt fjóra ráðherra, menn fái ekki að njóta sömu stöðu, það sé verið að mismuna mönnum ef aðeins einn er ákærður en ekki fjórir. Sumir telja að eðli málsins hafi breyst hér við atkvæðagreiðsluna. Sumir vilja nota tækifærið, eins og við höfum heyrt, til að gera upp gamlar pólitískar sakir allt aftur að Víetnamstríðinu og sumir telja að ekki séu líkur á því að sakfellt verði í málinu í ljósi þess sem ákært er fyrir. Menn hafa því ólíkar forsendur og ólíka skoðun á því hvað rétt sé að gera, en það sem er rétt niðurstaða er það sem meiri hluti Alþingis ákveður að skuli gert. Ef meiri hluti Alþingis vill halda málinu áfram heldur það áfram en ef ekki er meiri hluti fyrir því að halda því áfram er ekki aðeins eðlilegt heldur hið eina rétta að falla frá málsókninni.