140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

úrvinnsla skuldamála heimilanna.

[10:37]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég held að það sé alveg ljóst að allir eru að reyna að vinna að þessu máli af bestu getu. Menn eru að skoða leiðir í þessum ráðherrahópi, hvaða leiðir hægt sé að fara án þess að það komi harkalega niður á ríkissjóði, skattgreiðendum og lífeyrisþegum. Það eru ýmsar leiðir sem eru þar til skoðunar. Verðtryggingin er í sérstakri skoðun í efnahags- og viðskiptanefnd og væntanlega kemur niðurstaða þaðan fljótlega. Bæði efnahags- og viðskiptanefnd og ríkisstjórnin eru að skoða leiðir til að greiða úr þessum dómi og síðan erum við að skoða hvað hægt er að gera til að fara í aðgerðir sem bæta stöðu þeirra sem verst eru settir. Þetta er allt til skoðunar núna og meðal annars lánsveðin sem hafa því miður tekið lengri tíma en við höfðum vonast til.

Ég tel að við eigum að skoða það af fullri alvöru að allir komi að þessu borði, bæði stjórn og stjórnarandstaða, til að fara yfir þær hugmyndir (Forseti hringir.) sem hafa komið fram og meta saman hvað er raunhæft að gera. Í mínum huga er lykilatriði að við setjum ekki ríkissjóð á hvolf í þessu efni og förum í aðra átt en að stefna að stöðugleika og gerum það með þeim hætti (Forseti hringir.) að þetta lendi ekki á skattgreiðendum og lífeyrisþegum. Ég tek undir það að það eiga allir aðilar að koma að þessu borði.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir enn á hvatningu um að virða ræðutíma.)