140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

verðtryggð lán Landsbankans.

[10:40]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Forseti. Almennt vil ég segja að ég held að það sé ekki nokkur aðili sem hagnast á því, þegar til lengdar lætur, að verðlag hækki og misræmi aukist í samfélaginu. Varðandi samsetninguna á verðtryggðum og óverðtryggðum lánum í Landsbankanum, að hann sé sérstaklega að hlaða þar upp verðtryggðum lánum af því að hann hagnist á því, þá hef ég ekki skoðað þá samsetningu. Hitt er annað mál að eiginfjárstaða Landsbankans er mjög góð eins og hjá öðrum lánastofnunum. Ég hygg að eiginfjárstaðan sé hátt í 24% og þyrfti ekki að vera nema 18%. Svo virðist því sem Landsbankinn hafi þarna svigrúm til ákveðinna hluta en þessir fjármunir eru fastir og ekki hægt að nýta í arðgreiðslur eða annað, sem við vildum kannski gjarnan gera, fyrr en búið er að ganga lengra í endurskipulagningu á skuldum innan bankans.

En ég held að ríkisstjórnin sem slík geti auðvitað ekki haft áhrif á það hvernig Landsbankinn hagar samsetningu á eignum sínum. Það er fyrst og fremst stjórnar bankans og Bankasýslunnar, og Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins, að skoða það ef eitthvað er þar á seyði sem skapar verulegt ójafnvægi. En það er alveg ljóst að óverðtryggð lán eru núna þau lán sem þeir sem eru að skuldsetja sig, t.d. með íbúðakaupum, horfa mest til núna, og þau eru hagstæð í augnablikinu. En þar þurfa menn að skoða stöðu sína, hvort rétt sé að fara út í það, og meta allar aðstæður. En ég tel mjög mikilvægt að hv. efnahags- og skattanefnd, sem er með þessi mál til skoðunar og allir flokkar koma að sjálfsögðu að, skili sem fyrst niðurstöðu þannig að við sjáum hvert við viljum stefna að því er varðar verðtryggðar skuldbindingar í framtíðinni.