140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

verðtryggð lán Landsbankans.

[10:43]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegi forseti. Ég var ekki að spyrja um eiginfjárstöðu Landsbankans en það var engu að síður mjög fróðlegt að heyra hæstv. forsætisráðherra lýsa því yfir að hún væri svo góð að svigrúm væri til ákveðinna aðgerða, ef ég man orðalag hæstv. forsætisráðherra rétt. Þetta verður ekki skilið öðruvísi en forsætisráðherra sé að einhverju leyti loksins að ganga í lið með þeim sem telja að fara eigi fram frekari leiðrétting lána.

Ég var að spyrja um verðtryggingarjöfnuðinn og þá staðreynd að Landsbankinn er með langmesta skekkju af öllum fjármálastofnunum hvað þetta varðar og hagnast bókhaldslega séð um um það bil 1,2 milljarða kr. við hvert 1 prósentustig verðbólgu. Hvernig samræmist þetta eigendastefnu ríkisins? Hefur ríkisstjórnin kannski enga eigendastefnu fyrir þessi fjármálafyrirtæki sín? Það væri í sjálfu sér áhyggjuefni ef svo væri. Ég ætla að gera ráð fyrir því að slík stefna sé til staðar og spyr: Hvernig samræmist þetta þeirri stefnu?