140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

byggðamál og aðildarumsókn að ESB.

[10:55]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að hæstv. forsætisráðherra svari skýrt og afdráttarlaust. Fráleitt, sagði hæstv. forsætisráðherra. Þá hef ég ekki ástæðu til að draga það í efa.

Þingsályktunartillagan kemur öðrum hvorum megin við mánaðamótin, segir hæstv. ráðherra. Ég vil benda hæstv. forsætisráðherra á að það hlýtur að vera hérna megin við mánaðamótin þar sem nú er 1. mars þannig að ekki er um annað að ræða. En það er athyglisvert að breytingarnar eru á fullri ferð samkvæmt hæstv. ráðherra. Maður veltir fyrir sér hvort ekki sé einfaldlega verið að ákveða skipulag íslenska stjórnarráðsins einhvers staðar annars staðar en hér. Verið er að ákveða skipulagið í Brussel, í Evrópusambandinu, vegna þess að það þarf að uppfylla ákveðin skilyrði til að opna megi alla kaflana á þessu ári. Finnum við ekki með þessu smjörþefinn af aðildinni, smjörþefinn af því að þjóðþingin verði áhrifalaus, eins og forsvarsmenn (Forseti hringir.) Evrópusambandsins hafa viðurkennt, og að ákvarðanirnar komi að utan? Því spyr ég hvort ekki sé rétt að við tölum bara opinskátt um þetta og hættum þessum feluleik.