140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[11:07]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Tekist var á um það í janúarmánuði hvort málið væri þannig vaxið að rétt væri að vísa því frá, að leggja fram dagskrártillögu og samþykkja hana með þeim hætti að málið fengi ekki frekari meðferð. Við greiddum um það atkvæði. Meiri hluti þingsins komst að þeirri niðurstöðu að það væri ekki bara rétt heldur nauðsynlegt að málið fengi efnislega meðferð. Hún hefur sem betur fer farið fram og í raun er það alger rökleysa og fráleitt í ljósi þeirrar niðurstöðu sem fékkst í janúar að fara fram á frávísun málsins á þessum tímapunkti, enda vitum við öll sem erum hér saman komin að verði frávísunartillagan felld mun ekkert annað gerast en að við munum greiða atkvæði um málið efnislega. Það er langbesta og mikilvægasta niðurstaðan í þessu stóra máli, í fyrsta sinn sem landsdómur er kallaður saman, að (Forseti hringir.) efnisleg niðurstaða fáist. Það er grundvallaratriði. Þess vegna á að hafna frávísunartillögunni.