140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[11:08]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Eins og ég rakti í þinginu á sínum tíma taldi ég ekki nægilegt tilefni til að stefna fyrrverandi ráðherrum fyrir landsdóm og ég sagði því nei við tillögum um ákæru. Sú afstaða mín er óbreytt. Það er hins vegar afstaða mín og hefur verið að eftir að ákvörðun Alþingis í september 2010 lá fyrir sé málið farið úr höndum Alþingis til saksóknara og til landsdóms og á þeim vettvangi hefur því verið hafnað að vísa málinu frá. Við greiddum atkvæði á sínum tíma um rökstudda dagskrá í þessu máli, áður en það fór til nefndar. Mér finnst að niðurstaða meiri hlutans sem nú liggur fyrir sé mjög vel rökstudd og enn fleiri rökstudd atriði hafi komið fram sem styðja afstöðu mína. Hún er sú að ég er sammála fyrirliggjandi tillögu um rökstudda dagskrá og mun greiða henni atkvæði.