140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[11:13]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er vandasamt verk að fara með ákæruvald og um það segir í 3. mgr. 18. gr. sakamálalaga að ákærendur skuli vinna að því að hið sanna og rétta komi í ljós og gæta jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sektar. Þingleg meðferð þessarar tillögu hefur blessunarlega leitt í ljós að þingmenn og þingmannanefnd sem réð fyrir luktum dyrum öllum ráðum um efni ákæru, vilja nú leiðrétta verknaðinn áður en það er of seint. Fram hefur einnig komið að ýmsir þingmenn greiddu atkvæði með ákæru í september 2010 á pólitískum forsendum en ekki á forsendum efnislegs mats á sekt eða sýknu. Þetta er ný staðfesting á alvarlegum ágalla og tilurð ákæru sem vekur enn alvarlegri efasemdir en fyrr um réttmæti ákærunnar og gæði þeirrar rannsóknar sem lá að baki og bendir til að Alþingi hafi ekki virt grundvallarreglu 18. gr. sakamálalaga. Slíkur ágalli á hins vegar að mínu viti að leiða til sýknu sakbornings fyrir landsdómi. Afturköllun ákæru eins og gerð er tillaga um í þessu máli þarf að byggja á efnislegum forsendum samkvæmt sakamálalögum. Þau lög sjá ekki fyrir atvik sem þau sem hér eru uppi.

(Forseti hringir.) Ég tel því ekki lagarök að greiða atkvæði með tillögum um afturköllun ákæru en ég get ekki fengið mig til að greiða atkvæði gegn henni og bera þannig ábyrgð á málarekstri sem ég tel til stofnað á röngum forsendum og ekki standast lágmarkskröfur um réttaröryggi sakbornings. Þeir sem það vilja gera verða sjálfir að tryggja framhald ákæru með atkvæði sínu. Ég greiði því ekki atkvæði.