140. löggjafarþing — 65. fundur,  1. mars 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[11:23]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sitja níu. Meiri hlutinn ákveður að koma hér með tillögu um frávísun, aðrir gera það ekki. Þingmenn munu í atkvæðagreiðslu sýna hvort þeir eru sammála því að vísa málinu frá eða hvort þeir vilji áframhaldandi atkvæðagreiðslu um afturköllun ákærunnar. Mér finnst það rökvilla í máli þeirra sem segja að Alþingi sé með því að fara inn í dómsmál. Ég spyr: Er þá ákæruvaldið, sem hefur frumkvæðisskyldu í öðrum ákærumálum, líka að grípa inn í dómsmál eða á málið eingöngu að vera þannig þegar um landsdóm er að ræða að sakborningur nýtur ekki sama réttar í því máli og sakborningar í öðrum ákærumálum?

Virðulegur forseti. Ég skora á þingheim að segja nei við þessari frávísunartillögu og taka ábyrga afstöðu til afturköllunar ákæru á hendur Geir H. Haarde. Það væri þinginu (Forseti hringir.) til sóma.